Innlent

Auka samstarfið við Grænland á sjö sviðum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, og Katrín handsala yfirlýsinguna.
Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, og Katrín handsala yfirlýsinguna.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, undirrituðu í dag yfirlýsingu um aukið samstarf landanna tveggja. Í yfirlýsingunni árétta ráðherrarnir vilja sinn til að efla og útvíkka tvíhliða samvinnu.

„Á undanförnum árum hefur samstarf Íslands og Grænlands aukist, báðum löndunum til hagsbóta. Löndin hafa margvíslega sameiginlega hagsmuni og tækifæri auk þess að glíma við sambærilegar áskoranir í loftslags- og umhverfismálum,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem sérstök áhersla verður lögð á; viðskipti, fiskveiðar, efnahagssamstarf, loftslagsbreytingar og líffræðilegur fjölbreytileiki, jafnréttismál, menntun og rannsóknir, og menningarsamstarf.

Fram kemur í yfirlýsingunni að forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands muni funda annað hvert ár, til skiptis í Reykjavík og Nuuk, til þess að fara yfir framgang þeirra verkefna sem tengjast samstarfsyfirlýsingunni.

„Þetta er stór dagur í samskiptum Íslands og Grænlands þegar við undirritum þessa yfirlýsingu og setjum niður ákveðin áherslusvið sem við ætlum að vinna að. Ég held að í þessu felist mikil tækifæri, bæði fyrir Ísland og Grænland,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×