Erlent

Pútín og Selenskí saka hvor annan um hryðjuverk á víxl

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rússar vörpuðu meðal annars sprengjum í Kænugarði í morgun. 
Rússar vörpuðu meðal annars sprengjum í Kænugarði í morgun.  AP/Efrem Lukatsky

Sprengingar skóku Kænugarð og fleiri borgir í Úkraínu í morgun þar sem Rússar svöruðu fyrir árásina á Kerch brúna um helgina. Vólódimír Selenskí og Vladimír Putín saka hvor annan um hryðjuverk á víxl en Evrópusambandið hefur fordæmt árásirnar og leiðtogar G7 ríkjanna funda með Selenskí á morgun.

Árásirnar koma aðeins tveimur dögum eftir sprengingar á Kerch brúnni, sem tengir Krímskagann við Rússland, en Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði um helgina að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Hann greindi frá því á fundi öryggisráðs Rússlands í morgun að þau hefðu ákveðið að svara fyrir árásina á brúnna með árásum úr lofti, frá sjó og landi gegn orku-, hernaðar- og samskiptainnviðum Úkraínumanna. Þá hótaði Pútín frekari aðgerðum.

„Ef að tilraunir til að framkvæma hryðjuverkaárásir á okkar yfirráðasvæði halda áfram verða viðbrögð Rússlands hörð og í hlutfalli við ógnirnar gegn Rússneska sambandsríkinu. Enginn ætti að efast um það,“ sagði Pútín.

Rússar hafi viljað skapa hræðslu og óreiðu

Úkraínski herinn greindi frá því að Rússar hefðu skotið 75 flugskeytum á nokkrar borgir í Úkraínu en að hernum hefði tekist að stöðva 40 þeirra. Í Kænugarði voru árásir gerðar á háannatíma á fjölfarna staði, þar á meðal vinsæla göngubrú og stór gatnamót, en að minnsta kosti átta létust í einni árás samkvæmt bráðabirgðartölum.

Volodímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi í morgun að þau væru að eiga við hryðjuverkamenn. Skotmörkin væru tvö, annars vegar orkukerfið þar sem tugir sprengjuárása hafi verið gerðar á innviði í borgum allt frá Lviv í vestri til Saporisjía í austri.

„Þeir eru að leitast eftir hræðslu og óreiðu, þeir vilja eyðileggja orkukerfið okkar. Þeir eru vonlausir. Seinna skotmarkið er fólk. Þeir völdu viljandi þennan tíma og þessi markmið til að valda eins miklum skaða og hægt var,“ sagði Selenskí.

Hann hvatti fólk til að leita skjóls og fylgja öryggisleiðbeiningum en fullyrti að Úkraína myndi standa uppi sem sigurvegari að lokum. 

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, hefur kallað eftir afdráttarlausum viðbrögðum frá Vesturlöndunum og frekari stuðningi til Úkraínu. Hann gaf lítið fyrir fullyrðingar Pútíns um að þau hefðu neyðst til að svara fyrir árásirnar á Kerch-brúna. 

Evrópusambandið hefur fordæmt árásirnar, ásamt fjölmörgum öðrum þjóðarleiðtogum og framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, og munu leiðtogar G7 ríkjanna funda á morgun með forseta Úkraínu vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×