Fótbolti

Milliríkjadeila vegna fótboltatreyju

Valur Páll Eiríksson skrifar
Æfingatreyja Alsír sem um ræðir.
Æfingatreyja Alsír sem um ræðir. Twitter/Adidas

Marokkósk yfirvöld hafa krafist þess að þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas taki nýja treyju landsliðs Alsír úr umferð. Þau saka Alsíringa um að tileinka sér marokkóskan menningararf.

Ný æfingatreyja Alsíringa er býsna skrautleg og hefur vakið töluverða athygli. Samkvæmt bréfi sem marokkóski lögfræðingurinn Mourad Elajouti sendi fyrir hönd menningarráðuneytis Marokkó er mynstrið á treyjunni þekkt sem zellige, sem er algengt á marglitri keramikmósaík sem Marokkó hreykir sig af.

Bréfið var stílað á Kasper Rorsted, forstjóra Adidas, þar sem þess er krafist að treyjan verði tekin úr umferð innan tveggja vikna þar sem hún sé innblásin af list marokkóskrar zellige.

Þá fordæmir lögfræðingurinn að Alsíringar og Adidas geri slíka tilraun til að „ræna marokkóskum menningararfi“ (e. cultural appropriation).

Samkvæmt Adidas er hönnunin dregin frá Mechouar-höllinni í Tlemcen í Norðvestur-Alsír.

Alsír og Marokkó hafa löngum átt í erjum vegna umdeilds umráðasvæðis í Vestur-Sahara, þar sem Polisario-fylkingin, sem studd er af Alsír, krefst sjálfstæðis frá stjórn Egypta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×