Innlent

Mikið hvassviðri og alls konar foktjón

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bálhvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Bálhvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt. vísir/vilhelm

Mikið hvassviðri var á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Að sögn lögreglu fuku hlutir í öllum hverfum, þar á meðal þakplötur, girðingar og fellihýsi. Veður versnar með deginum á austfjörðum þar sem rauð viðvörun er í gildi.

Alls fór slökkviðlið á höfuðborgarsvæðinu í fjögur útköll, þar á meðal vegna eikarbátar sem losnaði úr festingum í Hafnarfjarðarhöfn. Að öðru leyti sinntu björgunarsveitir útköllum og var nóttin því tiltölulega róleg hjá embættinu.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að hlutir hafi fokið í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins en ekki er greint frá neinu stórkostlegu tjóni. 

Búist er við því að veðrið versni með deginum fyrir austan. Eins og fram hefur komið eru veðurviðvaranir í gildi í raun á öllu landinu. Á austfjörðum er búist við meðalvindhraða um 33 m/s og hviðum sem gætu náð allt að 60 m/s. Eins verður mun hægari vindur vestanlands. 

Að sögn Eiríks Arnar Jóhannessonar veðurfræðings hjá Veðurstofunni hefur spáin í raun lítið breyst.

„Það er að snúast í norðanáttina núna frá þessari vestanátt. Þá verður bærilegra veður á höfuðborgarsvæðinu en það verður verst á suðurhelmingi austfjarða. Viðvaranir eru óbreyttar.“

Búast má við við lokunum vegna óveðurs á Hringvegi frá Kirkjubæjarklaustri að Djúpavogi, sem og á Fagradal. „Þessar lokanir myndu taka gildi snemma dags og haldast yfir daginn, standist veðurspár,“ segir í tilkynningu vegagerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×