Innlent

Allt að tveggja ára fangelsi fyrir ölvunar­akstur á raf­magns­hlaupa­hjóli

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á umferðarlögum er varða reiðhjól. Samkvæmt frumvarpinu bætast rafmagnshlaupahjól við lögin. Allt að tveggja ára fangelsi mun liggja við akstri hjólanna undir áhrifum áfengis.

Frumvarpið var birt í samráðsgátt í gær og er samið í innviðaráðuneytinu vegna fyrirhugaðrar innleiðingar reglugerðar Evrópuþingsins um vélknúin ökutæki, eftirvagna þeirra og kerfi.

Fari frumvarpið í gegn mega börn yngri en þrettán ára ekki aka rafmagnshlaupahjólunum og verða ökumenn yngri en sextán ára að nota hjálm. Þá mega ökumenn ekki mælast með meira en 0,5 prómíl af vínanda í blóði eða lofti, sama magn og hjá bílstjórum ökutækja.

Akstur undir áhrifum verður gerður refsiverður og gætu ökumenn átt von á sekt eða allt að tveggja ára fangelsi. Þeir sem verða gómaðir við akstur rafmagnshlaupahjóls undir áhrifum munu þó ekki eiga von á sviptingu ökuréttar.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, hefur gagnrýnt frumvarpið og spyr hvort það sé ekki aðeins of langt að teygja refsirammann í tveggja ára fangelsi. 

Hingað til hefur engin umsögn um frumvarpið borist í samráðsgáttina. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×