Erlent

Rússneskir miðlar segja atkvæðagreiðslu um innlimun hafna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Atkvæðagreðisla er sögð hafin í Donetsk, Luhansk og á svæðum í Kherson og Zaporizhzhia.
Atkvæðagreðisla er sögð hafin í Donetsk, Luhansk og á svæðum í Kherson og Zaporizhzhia. AP

Samkvæmt ríkismiðlum í Rússlandi er atkvæðagreiðsla hafin á sumum þeirra hernumdu svæða í Úkraínu þar sem til stendur að halda íbúakosningu um innlimun nú um helgina. 

Tass fréttastofan segir atkvæðagreiðslur hafnar í Donetsk og Luhansk og á sumum svæðum í Kherson og Zaporizhzhia.

Stjórnmálaskýrendur segja enn óvíst hvaða áhrif herkvaðningin sem hafin er í Rússlandi muni hafa á rússneskt samfélag en fregnir hafa borist af löngum röðum við landamærin og uppseldum flugferðum úr landi.

Mannréttinda- og hjálparstofnanir segjast hafa fengið fjölda fyrirspurna þar sem fólk lýsir áhyggjum sínum að því að vera kvatt í herinn og þá virðast dæmi um að menn sem eiga að vera undanskildir herkvaðningu, til að mynda nemar og aðrir sem hafa ekki áður sinnt herskyldu, hafi engu að síður verið kallaðir til.

Í daglegu stöðumati sínu segir breska varnarmálaráðuneytið stöðuna á vígvellinum flókna en Úkraínumenn séu að sækja fram á svæðum sem Rússar hafa hingað til talið nauðsynlegt að taka yfir til að ná markmiðum sínum. 

Barist er við Oskil ána og þá freista Úkraínumenn þess að ná bænum Lyman í Donetsk, sem Rússar náðu á sitt vald í maí.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti biðlaði beint til rússnesku þjóðarinnar í ávarpi sínu í gærkvöldi og bað Rússa um að mótmæla, berjast gegn valdinu eða flýja. Þeir sem gerðu það ekki væru meðsekir. 

Forsetinn sagði ákvörðun stjórnvalda um herkvaðningu endurspegla að herlið landsins hefði, þrátt fyrir undirbúning, ekki getað náð Úkraínu á sitt vald. Með herkvaðningunni væri búið að færa stríðið inn á rússnesk heimili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×