Fótbolti

Í bann fyrir rasisma á Ólafsfirði

Sindri Sverrisson skrifar
Ivan Jelic má ekki koma aftur á Ólafsfjarðarvöll fyrr en hann hefur setið af sér fimm leikja bann.
Ivan Jelic má ekki koma aftur á Ólafsfjarðarvöll fyrr en hann hefur setið af sér fimm leikja bann. @ReynirSandgerdi/kfbolti.is

Ivan Jelic, markvörður Reynis Sandgerði, hefur verið úrskurðaður í fimm leikja bann eftir ljót ummæli sem hann lét falla í garð andstæðings í 8-3 tapinu gegn KF í 2. deildinni í fótbolta fyrr í þessum mánuði.

Í skýrslu dómara leiksins segir að Jelic hafi hrópað rasísk ummæli að Julio Cesar Fernandes, sem skoraði fernu fyrir KF í leiknum sem fram fór á Ólafsfirði. 

Samkvæmt skýrslunni kallaði Jelic „helvítis, litli api“ (e. „Fucking little monkey“) eftir að Brasilíumaðurinn skoraði framhjá honum í lok fyrri hálfleiks. Jelic fékk um leið að líta rauða spjaldið.

Stjórn knattspyrnudeildar Reynis sendi frá sér greinargerð vegna málsins og sagði Jelic þvertaka fyrir að rasísk meining væri að baki orðavals hans. Um væri að ræða einkar óheppilega þýðingu af króatísku blóti. Stjórnin sendi Jelic í leyfi á meðan að málið var skoðað og áréttaði í greinargerð sinni að hún fordæmdi alla kynþáttafordóma. 

Niðurstaða aga- og úrskurðanefndar var hins vegar sú að ummæli Jelic hefðu falið í sér „fyrirlitningu og niðurlægingu í orði með vísan til þjóðernisuppruna leikmanns andstæðinga“.

Auk fimm leikja bannsins sem Jelic var úrskurðaður í þá sætir hann banni frá Ólafsfjarðarvelli á meðan leikbannið varir. Þá var knattspyrnudeild Reynis sektuð um 100.000 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×