Fótbolti

Segir formanninum að mæta á leiki áður en hann tjáir sig

Atli Arason skrifar
Hildur Björg Kristjánsdóttir, leikmaður KR.
Hildur Björg Kristjánsdóttir, leikmaður KR. KR

Hildur Björg Kristjánsdóttir, leikmaður KR, virðist vera ósátt við ummæli Páls Kristjánssonar, formann knattspyrnudeildar KR. Hildur segir Páli að mæta á leiki KR áður en hann tjáir sig um mál liðsins.

Páll sagði í viðtali við 433.is að hann skilji gremju leikmanna og þjálfara KR en hann hefði frekar viljað fá kvartanir á sitt borð heldur en að lesa um þær í fjölmiðlum.

Hildur Björg svaraði frétt 433 á Twitter. „Kannski betra að mæta á leiki áður en þú tjáir þig um þetta og segir að þetta hafi ekki komið upp á þitt borð fyrr,“ skrifaði Hildur, sem á þar væntanlega við að kvartanir leikmanna KR hafi komið á borð Páls áður.

Þetta mál á allt rætur sínar að rekja í skort á sjálfboðaliðum á leik KR og Selfoss í Bestu-deild kvenna í gær. Þar þurfti Hannah Tillet að fara meidd af velli en engar sjúkrabörur eða réttir sjálfboðaliðar voru þá til staðar. 

Í viðtali við Vísi eftir leikinn sagði Christopher Harrington, annar að þjálfurum KR, að félagið yrði að sýna stelpunum virðingu og þá myndi það skila sér á vellinum.

„Í dag voru engar sjúkrabörur fyrir meiddan leikmann. Ef þetta væri í karla bolta þá væri þetta ekki neitt mál. Það eru ýmsir litlir hlutir sem að í kvenna bolta skipta miklu máli. Ef þú lætur konum líða eins og þær skipti máli og að þær finni fyrir virðingu þá skilar það sér á vellinum. Aðstæðurnar sem okkar stelpur eru í og miðað við það sem þær gefa á vellinum, vitandi það sem ég veit, þá er frábært að sjá það sem þær gera,“ sagði Harrington.

Í viðtali við Stöð 2 í dag sagðist Páll formaður sinna nær öllum störfum sjálfboðaliða á leikjum KR að vallarþul frátöldum. Formaðurinn segir skort á sjálfboðaliðum m.a. endurspeglast í slæmu gengi liðsins.

KR tapaði leiknum á móti Selfoss 3-5 og féll þar með úr Bestu-deildinni.


Tengdar fréttir

Lá sárþjáð en fékk engar börur: „Takið mig út af“

Hannah Tillett lá sárþjáð á grasinu á Meistaravöllum, heimavelli KR-inga, í tæpar fjórar mínútur í gær áður en liðsfélagar hennar héldu á henni af vellinum. Vonir standa til þess að hún hafi ekki slitið krossband í hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×