Atvinnulíf

Svansvottuð vinnu­að­staða ekki að­eins mögu­leg í ný­byggingum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Svansvottun er ekki aðeins möguleg í nýbyggingum en KPMG í Borgartúni er þriðja fyrirtækið á landinu sem hefur ráðist í Svansvottaðar endurbætur í húsnæði sem félagið hefur starfað í lengi. Sigrún Kristjánsdóttir rekstrar- og fjármálastjóri KPMG og Erik Cristianson Chaillot mannauðsstjóri segja breytingarnar ekki aðeins umhverfisvænar, heldur stuðli þær einnig að bættri heilsu og líðan starfsfólks. 
Svansvottun er ekki aðeins möguleg í nýbyggingum en KPMG í Borgartúni er þriðja fyrirtækið á landinu sem hefur ráðist í Svansvottaðar endurbætur í húsnæði sem félagið hefur starfað í lengi. Sigrún Kristjánsdóttir rekstrar- og fjármálastjóri KPMG og Erik Cristianson Chaillot mannauðsstjóri segja breytingarnar ekki aðeins umhverfisvænar, heldur stuðli þær einnig að bættri heilsu og líðan starfsfólks.  Vísir/Vilhelm

Fólk er almennt farið að þekkja ágætlega Svansvottaðar hreinlætis- og hreinsivörur, hótel og veitingastaði og fleira en síðustu misseri hefur það færst í vöxt að við séum að heyra um Svansvottaðar byggingar. Miðbærinn í Selfossi er gott dæmi um viðamikið byggingaverkefni þar sem hver einasta skrúfa er Svansvottuð og allt byggt með umhverfissjónarmið í huga.

En varla fara vinnustaðir að færa sig um set í húsnæði til þess eins að komast í Svansvottaða aðstöðu? Hvað yrði þá um öll eldri atvinnuhúsnæðin?

Það sem margir átta sig ekki á, er að það er hægt að fara í endurbætur á húsnæðum og betrumbæta þá aðstöðuna með því að láta Svansvotta endurbæturnar.

Þessi þróun er rétt að hefjast en höfuðstöðvar KPMG í Borgartúni er þriðja verkefnið á landinu sem vitað er um, að hefur ráðist í þessar breytingar í samstarfi við eigenda hússins, BYGG.

Í Atvinnulífinu í dag og á morgun er fjallað um þær breytingar sem eru að verða, í kjölfar innleiðingar á Svansvottuðun í atvinnuhúsnæðum, húsgögnum og vörum.

Heilsubætt aðstaða fyrir starfsfólk

Að ráðast í Svansvottaðar endurbætur á atvinnuhúsnæði þýðir að allar breytingarnar sem gerðar eru, eru úthugsaðar út frá umhverfissjónarmiðum þar sem áhersla er lögð á heilsu og vellíðan starfsfólks.

Sigrún Kristjánsdóttir rekstrar- og fjármálastjóri og Erik Cristianson Chaillot mannauðsstjóri eru meðal þeirra sem leitt hafa verkefnið hjá KPMG. Þau segja verkefnið auðvitað fela í sér ákveðinn kostnað, en í þeirra tilviki hafi verið kominn tími á húsnæðisbreytingar og viðhald og sé því litið á þetta sem langtíma fjárfestingu.

Þá finnst þeim breytingarnar líka vera ákveðinn gæðastimpill á húsnæðið. Enda allt valið mjög vandlega til að tryggja að endurbæturnar innihaldi sem minnst eiturefni og að rakavarnir séu tryggðar.

„Síðan eru líka alls kyns önnur atriði sem má nefna. Til dæmis hljóðvist þar sem val á gólfefni og í lofti byggir á að efnin dragi sem mest hljóð til sín. Þannig minnkar áreiti á starfsfólk og auðveldara er að halda einbeitingu,“ segir Sigrún.

Plöntur verða líka áberandi í nýju umhverfi en þær eru liður í því að bæta loftgæði starfsfólks með heilsuna í huga.

Hér má sjá hvernig vinnurými starfsfólks KPMG í Borgartúni er að taka stakkaskiptum. Í Svansvottuðu útfærslunni er búið að tryggja að allt efni innihaldi sem minnst eiturefni og að rakavarnir séu tryggðar, hljóðvist er mun betri og plöntur líka liður í því að bæta loftgæði starfsfólks. Aðsend

Breyttir tímar, breytt viðhorf

KPMG er alls með sextán starfstöðvar um land allt. Að sögn Sigrúnar og Eriks var byrjað á því að hugsa verkefnið út frá tveimur stöðum KPMG á höfuðborgarsvæðinu. Annars vegar í Borgartúni og hins vegar með opnun á nýrri skrifstofu í Hafnarfirði sem allt starfsfólk hefur einnig aðgang að.

Til að draga úr kolefnispori starfsfólks er markmiðið að starfsfólk félagsins á höfuðborgarsvæðinu geti valið um að vinna frá Borgartúni, Hafnarfirði eða að heiman.

Erik bendir á að breytingar sem þessar séu þó ekki aðeins umhverfisvænar, heldur einnig til þess líklegar að auka á lífsgæði starfsfólks og minnka streitu þar sem tímasparnaður getur verið mikill.

Við verðum að horfa á það að fólk er ólíkt, við erum ekki öll eins og lifum ólíkum lífum. 

Liður í því að efla okkur í samkeppni um fólk eru því líka atriði eins og aukinn sveigjanleiki í því hvar og hvenær vinna er unnin. Því með auknum þroska er atvinnulífið farið að horfa meira á afköst og árangur frekar en viðveru.“

Sigrún og Erik segja verkefnið hafa hafist formlega í janúar þó að framkvæmdir hafi ekki hafist fyrr en í maí. Upphaflega var stefnt að því að klára allar framkvæmdir fyrir áramót en nú sé ljóst að þær klárist ekki fyrr á nýju ári.

,,Það sést á myndunum að það er mikið lagt upp úr því að það sé ákveðinn heimilisfílingur á vinnustaðnum. Því þótt margir velji að vinna heima öðru hvoru, viljum við alltaf miða við það að starfsfólk vilji koma á vinnustaðinn til að vinna, einfaldlega vegna þess að þeim langi til þess og að þar líði þeim vel,“ segir Erik en það er Arkitekta- og hönnunarstofan Former sem hefur séð um alla hönnun.

Hjá KPMG starfa 300 manns, þar af um 80 út á landi. Breytingin á höfuðborgarsvæðinu nær því aðeins til hluta starfsfólks.

,,En vegferðin er hafin og snýst ekki aðeins um aðstöðuna sem er hér, heldur þetta langtímamarkmið okkar um að vera samkeppnishæf og eftirsóknarverður vinnustaður á landsvísu. Til marks um það eru margir hjá KPMG með háan starfsaldur og við viljum halda þeirri stöðu. Að sama skapi erum við meðvituð um að yngri kynslóðir hugsa svolítið öðruvísi og horfa meðal annars meira til umhverfismála, aðstöðu og sveigjanleika þegar kemur að því að velja sinn vinnustað.“

Sigrún og Erik eru sammála um að á næstu árum verði þróunin enn meiri í þessa átt hjá atvinnulífinu. Hún sé nú þegar byrjuð í nýbyggingum en smátt og smátt muni þeim fjölga vinnustöðunum sem munu huga að Svansvottuðu umhverfi þegar kemur að endurbótum á eldra húsnæði og aðstöðu.

Breytingar sem þessar eru þó kostnaðarsamar og því geri þau sér grein fyrir því að Svansvottaðar endurbætur sé ekki endilega eitthvað sem öll fyrirtæki ráði við. Í þessu tilfelli skipti það hins vegar miklu máli að húsnæðiseigendur voru tilbúnir til að fara í þessa vegferð með KPMG.

Sigrún tekur samt fram að með endurbótunum er ekki verið að kaupa allt nýtt.

Við lögðum áherslu á að endurnýta allt sem hægt er. 

Enda er endurnýting hluti af umhverfissjónarmiðinu.“


Tengdar fréttir

„Ekki líta á sjálfbærniupplýsingar sem markaðsefni“

„Ekki líta á sjálfbærniupplýsingar sem markaðsefni. Líttu á þær sem virðisaukandi upplýsingar sem auka aðgengi fjármálamarkaðarins að fyrirtækinu þínu,“ segir Reynir Atlason, forstöðumaður sjálfbærnimála hjá Creditinfo og formaður dómnefndar Hvatningaverðlauna fyrir sjálfbærniskýrslu ársins 2022.

„Algjörlega galið“ að hvatarnir séu þveröfugir við markmiðin

„Kerfið er okkar helsta áskorun þar sem hvatar eru þveröfugir og hvetja enn til þess að plast og annað endurvinnanlegt efni er flutt óunnið úr landi eða urðað. Það er algjörlega galið þar sem það hefur verri áhrif á umhverfið til viðbótar við tækifærin, verðmætin og störfin sem skapast ef við byggjum virðiskeðjuna upp hér á Íslandi,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir forstöðumaður viðskipta og þróunar hjá fyrirtækinu Pure North.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×