Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þróttur 2-0 | Stjarnan heldur áfram að setja pressu á Breiðablik

Andri Már Eggertsson skrifar
Stjörnukonur hafa átt flottu gengi að fagna í sumar.
Stjörnukonur hafa átt flottu gengi að fagna í sumar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Stjarnan vann afar mikilvægan sigur á Þrótti 2-0. Betsy Hasett kom Stjörnunni yfir með afar laglegu marki í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fékk Stjarnan víti og Gyða Kristín bætti við örðu marki Stjörnunnar og þar við sat.

Stjarnan heldur þriðja sætinu og er aðeins tveimur stigum frá Breiðabliki sem er í öðru sæti deildarinnar. 

Leikurinn fór fjörlega af stað og fengu bæði lið dauðafæri á fyrstu tíu mínútunum til að brjóta ísinn. Gestirnir byrjuðu á að fá tvö dauðafæri en Chante Sandiford, markmaður Stjörnunnar, varði vel. Íris Dögg Gunnarsdóttir, markmaður Þróttar, var í vandræðum til að byrja með þar sem hún kom Stjörnunni í óþarfa færi með klaufalegum mistökum en lukkan var með henni í liði.

Betsy Hassett kom Stjörnunni yfir með draumamarki á 17. mínútu. Gestirnir náðu ekki að hreinsa boltann nægilega langt frá. Betsy komst á vinstri fótinn og setti boltann í skeytin frá vítateigslínunni hægra megin. 

Eftir brösótta byrjun Írisar í markinu komst hún í betri takt við leikinn og sá til þess að mörk Stjörnunnar yrðu ekki fleiri og staðan í hálfleik var 1-0.

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var nálægt því að gera annað mark Stjörnunnar þegar tæplega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Aníta fékk sendingu á markteig en skot hennar í þverslána.

Þróttarar voru í vandræðum með að koma boltanum frá eftir hornspyrnur. Gestirnir hreinsuðu boltann beint á Gyðu Kristínu sem smellhitti boltann fyrir utan teig og Íris Dögg þurfti að hafa sig alla við og varði boltann í slána.

Heimakonur fengu víti á 67. mínútu. María Eva Eyjólfsdóttir braut á Jasmín Erlu í teignum og Stjarnan fékk víti. Gyða Kristín fór á punktinn og skoraði með því að setja boltann beint á markið. Gyða er næst markahæst í deildinni með 9 mörk og er aðeins einu marki eftir liðsfélaga sínum Jasmín Erlu.

Gestirnir úr Laugardalnum fengu þó nokkur færi til að minnka muninn á lokamínútunum en áhugi Þróttar á að skora kom aðeins of seint og Stjarnan vann 2-0 sigur.

Af hverju vann Stjarnan?

Eftir að Stjarnan refsaði Þrótti fyrir að fara illa með dauðafæri þegar staðan var markalaus voru heimakonur með yfirhöndina nánast til enda. 

Gyða Kristín skoraði annað mark Stjörnunnar úr víti og var það ekki fyrr en á síðustu fimm mínútunum sem Þróttur fór að leggja allt í sölurnar til að minnka muninn en það var of seint.

Hverjar stóðu upp úr?

Betsy Hassett skoraði ekki bara gullfallegt mark þegar hún braut ísinn í fyrri hálfleik heldur átti hún mjög heilsteypta frammistöðu í kvöld. 

Chante Sherese Sandiford, markmaður Stjörnunnar, hélt hreinu og varði afar vel þegar það reyndi á hana. Chante var á tánum frá fyrstu mínútu og sá til þess að Þróttur komst ekki yfir í upphafi leiks. 

Hvað gekk illa?

Þróttarar fengu töluvert af færum til að gera hið minnsta eitt mark en fóru afar illa með færin sín. Þróttur var að tapa sínum þriðja leik í röð og er óhætt að fullyrða að það sé ekki mikið sjálfstraust í liðinu. 

Hvað gerist næst?

Það fer fram heil umferð í Bestu deild kvenna næsta sunnudag klukkan 14:00. Þróttur fær KR sem er fallið úr deildinni.

Stjarnan fer norður og mætir Þór/KA.

Nik: KSÍ þarf að koma fram og segja að þetta er harkan sem við leyfum

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, var ekki sáttur með dómara leiksins.Vísir/Hulda Margrét

Nik Anthony Chamberlain, þjálfari Þróttar, var hundfúll með 2-0 tap gegn Stjörnunni.

„Í augnablikinu eru hlutirnir ekki að detta með okkur. Við hefðum átt að nýta færin betur til að byrja með en síðan skorar Betsy laglegt mark. Eftir markið duttum við niður og Stjarnan hefði getað skorað fleiri mörk en Íris Dögg varði vel,“ sagði Nik og hélt áfram.

„Ég þarf að sjá atvikið aftur þegar Stjarnan fékk víti. Frá mér séð virkaði þetta ekki sem víti en vill ekki fullyrða það.“

Nik var svekktur með að hans lið hafi ekki tekist að skora þar sem Þróttur skapaði sér fullt af færum. 

„Við fundum annan gír undir lokin. Í fyrri hálfleik fengum við líka færi til að byrja með og við fengum færi gegnum gangandi allan leikinn.“ 

Nik var ósáttur með dómgæsluna í kvöld og hefði viljað sjá Betsy fjúka út af.

„Það fellur ekkert með okkur bæði á vellinum og í dómgæslunni. Í kvöld var enn ein lélega frammistaðan hjá dómurunum. Það hefðu átt að vera miklu fleiri gul spjöld. Betsy fékk gult undir lokin og hefði þá átt að fjúka út af þar sem hún hefði átt að fá gult fyrr í leiknum. Miðað við hörkuna sem dómararnir eru að leyfa þá væri ég til í að KSÍ myndi stíga fram og segja að við leyfum leikmönnum að slást við hvort annað,“ sagði Nik að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira