Viðskipti innlent

Hörn ráðin til Transition Labs

Atli Ísleifsson skrifar
Hörn Halldóru- og Heiðarsdóttir.
Hörn Halldóru- og Heiðarsdóttir. Aðsend

Hörn Halldóru- og Heiðarsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Transition Labs þar sem hún mun gegna stöðu verkefnastjóra.

Í tilkynningu segir að Hörn hafi fengist við ýmis verkefni tengdum loftslagsmálum undanfarin ár, síðast sem ráðgjafi hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna þar sem hún hafi unnið að gerð nýs gagnagrunns með losun gróðurhúsalofttegunda frá matvælakerfum heimsins.

„Þar áður var hún framkvæmdastjóri Earth 2.0 og rekstrarstjóri vöruþróunar hjá Marel. Þá hefur Hörn starfað á sumrin sem landvörður á hálendi Íslands. Hörn er stofnandi og framkvæmdastjóri Yljar, fyrirtækis sem vinnur að byggingu hátæknigróðurhúss sem nýtir glatvarma og koltvísýring beint frá jarðvarmavirkjun.

Hörn er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc. í hugbúnaðarverkfræði frá sama skóla.

Hörn hefur sérstakan áhuga á umhverfis- og loftslagsmálum og er hluti af Food Climate Partnership, alþjóðlegu teymi sérfræðinga sem rannsakar samspil loftslagsbreytinga og matvælakerfisins og vinnur að aðgerðum þar að lútandi,“ segir í tilkynningunni.

Davíð Helgason, stofnandi Unity, og Kjartan Örn Ólafsson, frumkvöðull og tækifjárfestir, standa að baki Transition Labs og er ætlunin að sækja erlend loftslagsverkefni til landsins og gera Ísland að miðstöð fyrir loftslagsiðnað framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×