Erlent

Mál­verk Obama hjóna af­hjúpuð

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Obama hjónin með myyndunum sínum.
Obama hjónin með myyndunum sínum. AP/Andrew Harnik

Forsetamálverk Obama hjóna voru afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu í dag. Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna líkti forsetastarfinu við boðhlaup.

Myndirnar munu hanga í Hvíta húsinu við hlið eins mynda af öðrum forsetum og mökum þeirra. Heimsókn hjónanna í Hvíta húsið vegna afhjúpunarinnar er sú fyrsta sem þau fara í saman síðan forsetatíð Obama lauk. CNN greinir frá þessu.

Myndin af Barack Obama var máluð af listamanninum Robert McCurdy og myndin af Michelle Obama máluð af Sharon Sprung.

Við afhjúpunina leit forsetinn fyrrverandi yfir farinn veg, hrósaði Joe Biden fyrir verk sín eftir að hann tók við embætti og lýsti því hvernig hann hafi horft á forsetaembættið.

„Ég hef alltaf lýst forsetastarfinu sem boðhlaupi, þú tekur sprotann af einhverjum og hleypur þína vegalengd eins vel og þú getur og réttir sprotann svo til þess næsta, vitandi að verkinu er ekki lokið. Myndirnar sem hanga í Hvíta húsinu skrá þetta boðhlaup, hver keppandi reynir að færa landið sem við elskum nær okkar þrá,“ sagði Obama.

Hjónin sögðust vonast til þess að þegar næstu kynslóðir sjái myndirnar af þeim, sjái þau að allir geti komist þangað sem þau vilja.

„Það er það sem þetta land snýst um, það snýst ekki um uppruna, ætt eða auðæfi, þetta er staður þar sem allir skulu eiga möguleika,“ sagði Michelle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×