Innlent

Dansað og sungið við upptöku á rófum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjóla Signý, sem stefnir á að taka upp um tuttugu tonn af Sandvíkurrófum á næstunni.
Fjóla Signý, sem stefnir á að taka upp um tuttugu tonn af Sandvíkurrófum á næstunni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það á ekki að vera leiðinlegt að taka upp rófur og þannig er það alls ekki hjá rófubónda í Árborg því þar er dansað og sungið um leið og unnið er með rófurnar.

Útiræktað grænmeti hefur vaxið einstaklega vel í sumar, ekki síst rófur því nú er byrjað að taka þær upp á fullum krafti, meðal annars hjá Fjólu Signý í Sandvík í Árborg, Sandvíkurrófurnar svo nefndu, en hún reiknar með að taka upp tuttugu tonn í haust.

Fjóla auglýsti eftir fólki til að hjálpa sér við að taka upp og það stóð ekki á viðbrögðum, fullt af fólki hefur mætt til að aðstoða og það fær síðan rófur í staðinn með sér heim.

„Ég er að taka upp rófur, það gengur mjög vel og þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Freyja Bjarney Örvarsdóttir 11 ára, sem býr á Selfossi.

„Þetta er afskaplega gaman jú, það er það. Ég er svo mikið fyrir vinnuskipti, mér finnst gott að vinna og fá eitthvað annað en peninga í staðinn,“ segir Harpa Rún Kristjánsdóttir, sem býr á Hólum á Rangárvöllum.

„Já, það er mjög fín uppskera, það er búið að spretta mjög vel,” segir Fjóla Signý og bætir við.

„Það eru krakkar hérna að læra að vinna, sem foreldrar senda til mín: „Já, þú verður að kenna börnunum að vinna”, þau koma hér í smástund eftir skóla og rífa upp nokkrar rófur.”

„Þetta eru bestu rófur á Íslandi og þær eru lífrænt ræktaðar, það er mjög mikilvægt að það komi fram,” sögðu hressar konur, sem voru að taka upp á fullum krafti hjá Fjólu Signý.

Og það vantar ekkert upp á gleðina við rófuupptökuna, þar er sungið og dansað af mikilli innlifun.

Það er sungið og dansað í rófugarðinum hjá Fjólu Signý enda alltaf mikið stuð þar.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×