Fótbolti

„Ég drep þig ef þú meiðir Messi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Agüero vill að ekkert komi fyrir Messi félaga sinn.
Agüero vill að ekkert komi fyrir Messi félaga sinn. Alexandre Schneider/Getty Images

Fyrrum fótboltamaðurinn Sergio Agüero sendi skýr skilaboð til fyrrum félaga síns í argentínska landsliðinu eftir að dregið var í riðla Meistaradeildar Evrópu í gær.

Agüero er 34 ára gamall og neyddist til að leggja skóna á hilluna í fyrra, skömmu eftir að hafa samið við stórlið Barcelona. Hann fann fyrir hjartsláttartruflunum í miðjum leik í október í fyrra og staðfesti að hann væri hættur í desember.

Kappinn er virkur á samfélagsmiðlum, þá sér í lagi myndbandsmiðlinum Twitch, þar sem hann var í beinni útsendingu á meðan drátturinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fór fram.

Paris Saint-Germain, félag Lionels Messi, sem lék um árabil með Agüero í argentínska landsliðinu dróst þar í riðil með Benfica frá Portúgal.

Með Benfica leikur Nicolás Otamendi, sem hefur einnig leikið með argentínska landsliðinu undanfarin ár, og var liðsfélagi Agüero hjá Manchester City.

Agüero og Otamendi unnu þónokkra titla saman hjá Manchester City.Michael Regan/Getty Images

Agüero sendi skýr skilaboð til Otamendi eftir að liðin drógust saman.

„Gerðu það ekki meiða Messi, Otamendi, ég mun drepa þig. Það er heimsmeistaramót fram undan,“ sagði Agüero í útsendingunni í gær.

Líkt og hann bendir á tekur Argentína þátt á HM sem hefst í lok nóvember í Katar, þar sem gera má ráð fyrir að bæði Messi og Otamendi verði í leikmannahópnum.

Argentína er í C-riðli keppninnar með Sádí-Arabíu, Mexíkó og Póllandi. Fyrsti leikur liðsins er við Sáda þann 22. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×