Innlent

Hundrað hundar hlupu hunda­hlaup með hús­bændum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Fjöldi fólks hljóp með hunda sína í hundahlaupi UMFÍ í dag.
Fjöldi fólks hljóp með hunda sína í hundahlaupi UMFÍ í dag. Vísir/Hulda Margrét

Hundrað hundaeigendur sprettu fyrr í kvöld úr spori í hundahlaupi UMFÍ á Seltjarnarnesi. Þetta er fyrsta skiptið sem hundahlaupið er haldið. 

„Það er bara þannig að eftir Covid hrundi skráning lýðheilsutengdra viðburða um 30 til 50 prósent. Á sama tíma fóru allir og fengu sér hund. Þannig að nú sláum við þessu saman, við höldum hundahlaup og hvetjum eigendur til að hreyfa sig úti með hundana,“ segir Kolbrún Arna Sigurðardóttir dýrahjúkrunarfræðingur og einn skipuleggjenda hlaupsins. 

Þessi var með þrjá í farteskinu.Vísir/Hulda Margrét

Hún segist hæstánægð með að íþróttahreyfingin hafi haft frumkvæði að hlaupinu. 

„Þetta er fyrsta sinn á Íslandi sem íþróttahreyfingin hefur samband við hundaeigendur og falast eftir samstarfi og okkur finnst það mjög gaman og erum að sjálfsögðu til í að vera með,“ segir Kolbrún. 

Þessi var vonandi kátur með hlaupið.Vísir/Hulda Margrét

Bjóstu við þessum fjölda?

„Nei, ég var búin að gera mér í hugarlund að þetta yrði ekki vandræðalegt af það mættu tuttugu eða þrjátíu en þetta fór langt fram úr vonum. Við erum með yfir hundrað skráningar og hefur allt gengið stórkostlega vel í dag. Skipulagið hjá UMFÍ hefur verið til fyrirmyndar og hundaeigendur til fyrirmyndar,“ segir Kolbrún. 

Þetta verði ekki eina og síðasta skiptið sem hlaupið fari fram. 

„Við ætlum að halda þetta árlega framvegis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×