Viðskipti innlent

Launa­hækkanir nái ekki að halda í við verð­bólgu­þróun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tólf ára samfelldri kaupmáttaraukningu virðist vera lokið.
Tólf ára samfelldri kaupmáttaraukningu virðist vera lokið. Vísir/Vilhelm

Launahækkanir ná ekki lengur að halda í við verðbólguþróun og er kaupmáttur því á niðurleið. Þetta segir í nýrri skýrslu frá greiningardeild Landsbankans. Launavísitalan lækkaði um 0,1 prósentustig á milli júní og júlímánaðar en síðustu tólf máuði hefur launavísitala hækkað um 8,1 prósent. 

Fram kemur í skýrslunni að ekki sé óvenjulegt að launavísitalan hafi lækkað örlítið í júlí en þetta sé þriðja árið í röð sem að gerist. Júlímánuður sé óvenjulegur að mörgu leyti á vinnumarkaði aðallega vegna sumarleyfa starfsmanna. 

Verðbólga mældist 9,9 prósent í júlí en árshækkun launavísitölunnar var 8,1% þannig að kaupmáttur launa minnkaði um 1,7 prósent milli júlímánaða 2021 og 2022. Kaupmáttur í júlí var 4,1 prósenti lægri en hann var í janúar á þessu ári en þá var kaupmáttur sá mesti í sögunni. Verðbólga síðustu mánaða hafi því minnkað kaupmátt töluvert. 

Segir í skýrslunni að það geti haft í för með sér að minna af vörum og þjónustu fáist fyrir þau laun sem greidd eru þrátt fyrir launahækkanir. 

Þá segir í skýrslunni að júnímánuður hafi verið merkilegur á þann hátt að kaupmáttur minnkaði í fyrsta sinn í júnímánuði frá því árið 2010. Tæplega tólf ára samfelldri kaupmáttaraukningu hafi þannig verið lokið og nú hafi liðið tveir mánuðir þar sem kaupmáttur minnkaði miðað við sama tímabil á fyrra ári. 

Kaupmáttur hafi þannig ekki verið lægri síðan í desember 2020. Nokkuð víst megi telja að kaupmáttur haldi áfram að minnka á næstu mánuðum þar sem verðbólga er áfram mikil og ekki um frekari samningsbundnar launahækkanir að ræða á þessu sammningstímabili, sem lýkur í lok október á almenna markaðnum. 

Þá segir í skýrslunni að af starfsstéttum skeri verkafólk og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk sig nokkuð úr hvað varðar launabreytingar frá maí 2021 til maí 2022. Laun beggja hópanna hafi hækkað um um það bil 10,5 prósent á þessu tímabili á meðan laun annarra hópa hafi hækkað um sex til átta prósent. Það sé enn ein staðfestingin á því að markmið lífskjarasamningsins um meiri hækkun lægri launa hafi náð fram að ganga. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×