Innlent

Mið­borginni breytt í alls­herjar­göngu­götu

Árni Sæberg skrifar
Búast má við að margt verði um manninn á göngugötunni miðbæ Reykjavíkur í dag.
Búast má við að margt verði um manninn á göngugötunni miðbæ Reykjavíkur í dag. Vísir/Vilhelm

Í tilefni Menningarnætur verður miðborg Reykjavíkur breytt í allsherjargöngugötu og lokað alfarið fyrir almennri bílaumferð í dag. Frítt verður í Strætó í allan dag.

Lokunin tekur gildi klukkan 7 í dag á svæði sem nær frá Sæbraut í norðri til Hringbrautar í suðri og frá Ægisgötu í vestri til Snorrabrautar í austri. Svæðið verður lokað umferð til klukkan 1 í nótt. Þá verður Sæbraut frá Kringlumýrarbraut lokað klukkan frá 20 til klukkan 1. 

Lokunin er víðtæk.Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hvetur gesti Menningarnætur til að ganga í bæinn, hjóla eða nýta sér fríar ferðir með strætó.

Þeim sem kjósa að koma á eigin bíl er bent á bílastæði við Laugardalsvöll og í Borgartúni. Þaðan ganga strætóskutlur að Hallgrímskirkju með viðkomu á Hlemmi, að því er segir á vef Menningarnætur.

Þar er jafnframt bent á að starfsfólk símavers Reykjavíkurborgar veiti gestum Menningarnætur gagnlegar upplýsingar af ýmsum toga í síma 411-1111 og opið sé á milli kl. 08:30 - 23:00.

Frítt í strætó og leiðakerfi rofið klukkan 22:30

Á morgun verður frítt í Strætó í allan dag en klukkan 1 í nótt tekur hefðbundinn næturstrætó við sem rukkað verður í.

Vögnum 1, 3, 5, 6, 11, 12, 13, 14 og 15 verður ekið hjáleið um Hringbraut og Snorrabraut á leið til og frá Hlemmi vegna götulokana.

Þá verður leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu rofið klukkan 23:30 og öllum tiltækum vögnum verður beint að Sæbraut við Höfða. Á vef Strætó má sjá töflu sem sýnir síðustu ferðir allra leiða, utan þeirra sem eru í pöntunarþjónustu, áður en leiðakerfið verður rofið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×