Erlent

Á þriðja tug látnir eftir sprenginguna í Kabúl

Atli Ísleifsson skrifar
Spreningin varð í mosku í hverfinu Khair Khana í höfuðborginni Kabúl í gærkvöldi.
Spreningin varð í mosku í hverfinu Khair Khana í höfuðborginni Kabúl í gærkvöldi. AP

Lögregla í Afganistan segir að 21 maður hið minnsta hafi látið lífið og á fjórða tug særst eftir spreninguna sem varð í mosku í hverfinu Khair Khana í höfuðborginni Kabúl í gærkvöldi.

Khalid Zadran, talsmaður lögreglu, segir að sprengingin hafi orðið þegar kvöldbænir stóðu yfir í moskunni og er imam moskunnar sagður vera í hópi hinna látnu.

Enn hefur enginn lýst yfir ábyrgð á sprengingunni, en liðsmenn hryðuverkasamtakanna ISIS hafa að undanförnu látið til skarar skríða í afgönsku höfuðborginni. 

Þannig drápu liðsmenn samtakanna Rahimullah Haqqani, þekktan klerk sem var stuðningsmaður stjórnar Talibana í landinu, fyrir um viku í sjálfsvígssprengjuárás.

Í frétt BBC segir að liðsmenn ISIS og Talibana eigi nú í hatrömmum átökum í landinu, um ári eftir að Talibanar náðu tökum á landinu eftir brottför Bandaríkjahers á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×