Skoðun

Góðir íþróttamenn fara í boltann en ekki manninn

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Í fjármálahruninu 2008 stóðum við hjónin í húsbyggingu og fór framkvæmdin í hægagang en þó tókst að lokum að ljúka verkinu og fluttum við inn haustið 2009. Þetta voru erfiðir tímar fyrir húsbyggjendur sem aðra og stjórnmálamönnum voru vægast sagt mislagðar hendur í þessu ástandi og engin skýr lausn í kortunum. Vorið 2009 var ég að hlusta á fréttir og var þar ungur formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, í viðtali vegna þess að Framsókn ætlaði að verja ríkisstjórnina falli, meðal annars gegn því að farið yrði í 20% afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og fyrirtækja. Ég tók kipp, allt í einu var kominn stjórnmálamaður sem talaði í lausnum á einfaldan og skýran hátt. Engum duldist að þarna var stjórnmálamaður sem sá hlutina með nýjum og frumlegum hætti, en það sem var mest um vert, hann bauð upp á lausnir.

Einstakar aðgerðir að frumkvæði Sigmundar Davíðs

Eftir þetta fór ég að fylgjast með þessum stjórnmálamanni. Sigmundur Davíð var í InDefence hópnum sem barðist í Icesave-málinu fyrir þjóðina og hafði sigur. Í alþingiskosningunum 2013 vann Framsóknarflokkurinn sögulegan sigur með Sigmund Davíð í stafni og varð hann forsætisráðherra í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þá var ráðist í aðgerðir sem lofað hafði verið í kosningabaráttunni svo sem skuldaleiðréttingu verðtryggðra fasteignalána og gjaldeyrishöftum var aflétt með stöðuleikaframlagi kröfuhafa föllnu bankana sem færði ríkissjóði að núvirði um þúsund miljarða króna. Einstök aðgerð í Íslandssögunni þó ekki vilji allir halda því á lofti. Margt annað væri hægt að telja upp sem bætti hag þjóðarinnar á þessum árum. En um leið og Sigmundur Davíð var að breyta hlutunum til hins betra fór maður að verða var við mikinn mótvind, jafnvel hatur í hans garð frá aðilum sem ekki höfðu önnur ráð en að vera bara á móti, engin pólitík, engin rök, bara farið í manninn.

Eftir kosningarnar var ég orðinn fyrsti varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi á eftir fjórum þingmönnum, af því ég lét tilleiðast að þiggja fimmta sæti á framboðslistanum. Kom fyrst inná þing haustið 2013 og fann strax fyrir þeim krafti sem fylgdi Sigmundi Davíð og einbeittum vilja hans til að standa við kosningaloforðin. En einhverra hluta vegna jókst mótvindurinn og óbilgirnin í garð forsætisráðherra.

Svik innan Framsóknar

Vorið 2016 er ég inn á Alþingi eftir að Panama-skjölin voru birt en þar var sagt með nýjum hætti það sem allir vissu, að forsætisráðherrahjónin áttu fjármuni sem þau höfðu meðal annars erft. Um það höfðu verið sagðar fréttir, peningarnir alltaf taldir fram og greiddir af þeim skattar. Eigi að síður var blásið til mótmæla á Austurvelli og ég fann að þingmenn Framsóknar voru farin að pískra saman og grasrótin ókyrrðist. Sigmundur Davíð sagði af sér til að lægja öldurnar og skapa starfsfrið við stjórn landsins. Um leið afhenti hann varaformanni flokksins lyklana tímabundið með loforði um að vinna áfram að þeim málum sem komin voru á rekspöl þjóðinni til heilla.

Við það var ekki staðið og allt fór á ís. Haldið var flokksþing Framsóknarflokksins þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson bauð sig á móti sitjandi formanni og var það í fyrsta sinn í sögu flokksins sem slíkt gerist. Allt það baktjaldamakk og sú neðanjarðarstarfsemi sem unnin var var á móti Sigmundi Davíð fyrir þingið væri efni í heila bók.

Furðufréttir um hugsanlega ræðu

Haustið 2017 springur þáverandi ríkistjórn og Sigmundur Davíð segir sig úr Framsókn og Miðflokkurinn er stofnaður. Ég bauð mig fram og komst á þing. Á því kjörtímabili börðumst við fyrir því sem við töldum þjóðinni fyrir bestu. Kynni mín af Sigmundi Davíð eru að hann er eldklár eldhugi sem brennur fyrir að vinna þjóðinni gagn. Hann er hlýr og umhyggjusamur maður við nánari kynni en frekar feiminn innan um fólk. Hann er hins vegar feikna góður ræðumaður, lausnamiðaður og lætur skynsemi ráða umfram tilfinningar. Hann lætur fátt sér fyrir brjósti brenna.

Þessi upprifjun og hugleiðingar fóru af stað þegar furðufréttir fóru að berast af af hugsanlegri ræðu sem Sigmundur Davíð ætlaði að halda í Svíþjóð á dögunum. Þar skein í gegn fyrirlitning, jafnvel hatur. Hvernig má það vera að jafn saklaust athæfi og að veita útlendingum innsýn inn í reynslu Íslands við að glíma við fjármálakreppu í ljósi núverandi þróunar efnahagsmála veki slík viðbrögð? Því miður er þetta orðið hluti af umræðuhefð nútímans sem gerir sannarlega engan að betri manni. Ég treysti hins vegar Sigmundi Davíð til að halda áfram að berjast fyrir skynsömum lausnum. Við þurfum á stjórnmálamönnum sem honum að halda.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×