Fótbolti

Þriðja sinn sem sami þjálfari er rekinn rétt fyrir HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vahid Halilhodzic þegar dregið var í riðla fyrir heimsmeistaramótið í Katar.
Vahid Halilhodzic þegar dregið var í riðla fyrir heimsmeistaramótið í Katar. EPA-EFE/NOUSHAD THEKKAYIL

Vahid Halilhodzic var látinn fara í gær sem landsliðsþjálfari Marokkó en aðeins þrír mánuðir eru í að landsliðið spilar á heimsmeistaramótinu í Katar.

Það sem er furðulegast við þessa uppsögn er að þetta er í þriðja sinn á þjálfaraferlinum sem Halilhodzic missir landsliðsþjálfarastarf rétt fyrir heimsmeistaramót.'

Knattspyrnusamband Marokkó sagði ástæðu uppsagnarinnar vera ósætti hans með undirbúning liðsins fyrir heimsmeistaramótið.

Marokkó á að spila sinn fyrsta leik á HM 23. nóvember en liðið er í riðli með Króatíu, Belgíu og Kanada.

Það fylgir reyndar sögunni að með þessari uppsögn Halilhodzic þá opnast aftur leið fyrir Chelsea stjörnuna Hakim Ziyech inn í landsliðið. Ziyech hætti í landsliðinu í fyrra eftir ósætti við Halilhodzic.

Halilhodzic er 69 ára gamall Bosníumaður sem á þriggja áratuga þjálfaraferil.

Tvisvar áður hefur hann lent í því að koma landsliði á heimsmeistaramót án þess að fá að stjórna liði sínu þar.

Það gerðist einnig þegar hann kom Fílabeinsströndinni á HM 2010 en aftur þegar hann kom Japan á HM 2018.

Halilhodzic hefur samt stýrt liði á HM því það gerði hann sem landsliðsþjálfari Alsír á HM 2014.

Árið 2010 missti hann landsliðsþjálfarastarfið hjá Fílabeinsströndinni fjórum mánuðum fyrir HM í Suður-Afriku en það kom eftir að liðið datt óvænt út úr átta liða úrslitum Afríkukeppninnar.

Árið 2018 missti hann landsliðsþjálfara starfið hjá Japan eftir að hafa verið mjög umdeildur í sínu starfi. Samskiptierfiðleikar og skortur á trausti var sögð ástæðan fyrir brottrekstrinum en Halilhodzic höfðaði seinna mál gegn japanska knattspyrnusambandinu og forseta þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×