Innlent

Æ fleiri grunnir skjálftar geti bent til kvikuhlaups

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ari Trausti Guðmundsson segir að æ fleiri grunnir skjálftar við Fagradalsfjall geti bent til þess að um kvikuhlaup sé að ræða.
Ari Trausti Guðmundsson segir að æ fleiri grunnir skjálftar við Fagradalsfjall geti bent til þess að um kvikuhlaup sé að ræða. Vísir/Vilhelm

Jarðfræðingurinn Ari Trausti Guðmundsson segir æ fleiri grunna skjálfta við Fagradalsfjalla benda til þess að um kvikuhlaup geti verið að ræða. Slíkt hlaup geti lognast út af eða kvikan brotið sér leið upp á yfirborðið en það sé erfitt að meta slíkt núna af dýptartölum.

Ari Trausti skrifar þetta í færslu á Facebook-síðu sinni fyrr í dag þar sem hann fjallar um jarðskjálftahrinuna við Fagradalsfjall. Með færslunni er mynd af Roger Croft, skoskum náttúruverndarmanni við Fagradalsfjall, skammt frá skjálftasvæðinu.

Í færslunni lýsir Ari því líka hvernig skjálftarnir „raðast í hefðbundna NA-sprungustefnu og hliðlægt við gossprunguna frá 2021“ og vísar í Skjálfta-Lísu Veðurstofunnar.“

Nú þegar þessi frétt er skrifuð hafa rúmlega 570 skjálftar mælst á mælum Veðurstofunnar við Fagradalsfjall og segja sérfræðingar að hrinan muni vara næstu daga.


Tengdar fréttir

Óvissustigi lýst yfir vegna hrinunnar

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum lýst yfir óvissustigi Almannavarna vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Jarðskjálftahrina hófst uppúr hádegi í dag 30. júlí og er enn í gangi. Veðurstofa Íslands hefur sett Krýsuvík á gult vegna flugumferðar en mesta virknin er NA við Fagradalsfjall.

Skjálfti að stærð 4,4 reið yfir við Fagra­dals­fjall rétt fyrir fimm

Jarðskjálftahrina stendur nú yfir við Fagradalsfjall. Hún hófst um hádegisbil en stærsti skjálftinn í hrinunni var 4,4 að stærð og mældist rétt fyrir klukkan fimm. Flugveðurkóði hefur verið settur á gult og Almannavarnir fylgjast með stöðunni. Náttúruvársérfræðingur telur að atburðurinn muni vara í nokkra daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×