Innlent

Sýndar­ferða­lag um gos­stöðvarnar heima í stofu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Verkefnið gerði Hörður fyrir Áfangastaðastofu Reykjaness.
Verkefnið gerði Hörður fyrir Áfangastaðastofu Reykjaness. Aðsend

Á heimasíðu Áfangastaðastofu Reykjaness er nú hægt að fara í sýndarferðalag um gosstöðvarnar í Fagradalsfjalli. Ferðalagið er samansett úr fimm 360 gráðu myndum og eru þær myndir saumaðar úr 25 öðrum ljósmyndum.

Hörður Kristleifsson, ljósmyndari Áfangastaðastofu Reykjaness, sá um verkefnið en í samtali við fréttastofu segir hann að starfsmenn stofunnar hafi fengið fjölda fyrirspurna um gosstöðvarnar frá ferðamönnum, til dæmis hvaða gönguleið sé best.

„Mér fannst vanta góðar yfirlitsmyndir af svæðinu. Þetta hjálpar fólki að undirbúa gönguleiðina sína eða fyrir fólk sem getur ekki labbað sjálft,“ segir Hörður.

Hann segir viðtökurnar hafa verið nokkuð góðar og að fólk kunni vel að meta verkefnið. Einhverjir segjast hafa skoðað myndirnar eftir gönguna til að sjá betur hvað það var að skoða.

Hörður vann svipað verkefni þegar gosið var enn í gangi en þá var ekki hægt að skoða allt svæðið á sama tíma. Þetta er fyrsta svæðið sem hann setur svona upp en stefnir á að gera svipaðar myndir fyrir helstu ferðamannastaði landsins seinna meir.

„Þetta eru einu gagnvirku loftmyndirnar sem til eru af svæðinu. Kortasjár hafa ekki enn uppfært gervitunglamyndir sínar af svæðinu og því er ekki hægt að skoða útbreiðslu hraunsins þar,“ segir Hörður.

Öll örnefni eru merkt á myndina en hægt er að sjá gosstöðvarnar frá sjónarhóli Langahryggs, Meradala, Fagradalsfjalls, aðalgígsins og frá Keili.

Á vef Áfangastaðastofu Reykjaness er hægt að sjá myndirnar sem Hörður nýtti í verkefnið, sem og myndir frá því að fjallið gaus enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×