Fótbolti

Agla María snýr aftur í Breiðablik

Hjörvar Ólafsson skrifar
Agla María Albertsdóttir í leik með Íslandi á EM í Englandi á dögunum. 
Agla María Albertsdóttir í leik með Íslandi á EM í Englandi á dögunum.  Visir/Getty

Agla María Albertsdóttir hefur fengið félagaskipti í Breiðablk frá sænska félaginu Häcken. Þetta kemur fram á heimasíðu knattspyrnusambands Íslands. 

Agla María gekk til liðs við Häcken frá Breiðabliki í upphafi þessa árs en henni hefur gengið illa að festa sig í sessi hjá liðinu. 

Breiðablik er í öðru sæti Bestu deild­ar kvenna eins og sakir standa en liðið er fjór­um stig­um á eft­ir Val, þegar átta um­ferðir eru eft­ir af deildinni. Agla María getur leikið með Blikum þegar liðið mætir KR í næstu umferð deildarinnar á fimmtudaginn kemur. 

Þessi 22 ára gamli kantmaður hefur skorað 46 mörk í 69 leikj­um fyr­ir Breiðablik. Agla María kom að 57 mörkum í síðustu 33 deildarleikjum sínum fyrir Blika áður en hún söðlaði um til Svíþjóðar.

Árið 2018 varð Agla María Íslands- og bikarmeistari með Breiðabliki og svo bikarmeistari með Kópavogsliðinu síðasta haust. Þá varð Agla María Íslands­meist­ari með Stjörn­unni árið 2016 en auk þessara félaga hefur hún leikið með Val hér á landi. 

Agla María kom inná sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum íslenska landsliðsins á Evrópumóinu í Englandi gegn Belgum og Ítölum. Hún var svo í byrjunarliðinu þegar íslenska liðið mætti Frökkum í lokaumferð í riðlakeppni mótsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×