Erlent

Þrír skotnir til bana við útskriftarathöfn í Filippseyjum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lögreglumenn rannsaka vettvang skotárásarinnar.
Lögreglumenn rannsaka vettvang skotárásarinnar. EPA/Rolex Dela Pena

Þrír voru skotnir til bana við úrskriftarathöfn úr háskólanum Ateneo de Manila á höfuðborgarsvæði Filippseyja í gær. Árásarmaðurinn var handtekinn eftir eftirför lögreglu en hann hafði reynt að flýja vettvang.

CNN hefur eftir Remus Medina, lögreglustjóra Quezon-borgar, að talið sé að árásarmaðurinn sé leigumorðingi. Hann hafi ætlað sér að drepa Rose Furigay, fyrrverandi borgarstjóra borgarinnar Lamitan, en dóttir Furigay var meðal útskriftarnema. Furigay lést í árásinni ásamt tveimur öðrum.

Hinir tveir sem létu lífið voru öryggisvörður á háskólasvæðinu og annar karlmaður sem var á athöfninni.

Borgin Quazon er hluti af höfuðborgarsvæði Manila en um þrettán milljónir manna búa á svæðinu. Skólinn, Ateneo de Manila, er með eina af bestu lagadeildum landsins. Skólinn var stofnaður árið 1859 af Jesúítareglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×