Fótbolti

Fagnaði afmæli lokuð inni á herbergi en færði Hollandi loksins góðar fréttir í dag

Sindri Sverrisson skrifar
Vivianne Miedema styrkir hollenska landsliðið mikið.
Vivianne Miedema styrkir hollenska landsliðið mikið. Getty/Alex Livesey

Hollendingar geta svo sannarlega glaðst því markamaskínan Vivianne Miedema er laus úr einangrun eftir að hafa greinst með kórónuveirusmit.

Miedema, sem skorað hefur 94 mörk í 112 landsleikjum, missti af tveimur leikjum í riðlakeppni EM vegna smitsins en það kom þó ekki í veg fyrir að Holland kæmist í 8-liða úrslitin. Þar bíður liðsins hins vegar afar erfiður leikur gegn Frökkum á laugardagskvöld.

Á Twitter-síðu hollenska liðsins var í dag greint frá því að Miedema væri nú mætt aftur í hollenska hópinn og má því fastlega búast við því að hún spili gegn Frakklandi.

Miedema var með í jafnteflinu við Svía í fyrsta leik Hollands á EM en missti svo af leikjunum við Sviss og Portúgal, og varð að halda upp á 26 ára afmælið sitt í einangrun á hótelherbergi.

Hollendingum veitti ekki af góðum fréttum eftir að í ljós kom að Lieke Martens yrði ekki meira með liðinu á mótinu vegna meiðsla, og markvörðurinn og fyrirliðinn Sari van Veenendaal hafði áður meiðst í öxl og þurft að draga sig úr hópnum. Þá missti Aniek Nouwen af tveimur leikjum vegna ökklameiðsla. Jackie Groenen smitaðist einnig af kórónuveirunni, eins og Miedema, en missti aðeins af einum leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×