Innlent

Vilja endurskoða skilgreiningu melatóníns

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Melatónín er sem stendur lyfseðilsskylt. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Melatónín er sem stendur lyfseðilsskylt. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Stöð 2/Egill

Matvælastofnun hefur lýst yfir vilja til þess að endurskoða skilgreiningu melatóníns. Sem stendur er melatónín lyfseðilsskylt, ólíkt því sem er í mörgum nágrannalöndum, þar sem það er fáanlegt sem fæðubótarefni.

Í tilkynningu Matvælastofnunar segir að stofnunin hafi óskað eftir áliti Lyfjastofnunar um hvort melatónín skuli áfram flokkast sem lyf hérlendis. „Matvælastofnun telur mikilvægt að endurskoða þessa skilgreiningu þar sem efnið er nú þegar leyfilegt, að ákveðnum hámarksstyrk, sem fæðubótarefni í ýmsum Evrópulöndum,“ segir í tilkynningunni.

Stofnunin telur því endurskoðun á skilgreiningu og setningu hámarks dagskammts vera mikilvægt skref í því „að tryggja öryggi neytenda í landinu og koma í veg fyrir ólögmæta hindrun á markaðssetningu löglega framleidds melatóníns, sem fæðubótarefni.“

Mikið um ólöglegan innflutning

Einnig kemur fram að mörg lönd hafi farið varlega að leyfa efnið í fæðubótarefnum. Í Frakklandi sé allt að tvö milligrömm af melatóníni í dagsskammti leyfilegt og á Spáni, Ítalíu og Póllandi er viðmiðið eitt milligramm á dag. 

Þessi skilgreining melatóníns í öðrum löndum hafi jafnframt valdið því að mikið sé um ólöglegan innflutning á melantóníni hingað til lands. Það endurspeglist í því mikla magni sem tollgæslan hafi lagt hald á undanfarið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×