Fótbolti

Karólína Lea: Ég mun ekki sofa mikið í nótt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Karólína Lea fagnar hér marki sínu í leiknum í dag.
Karólína Lea fagnar hér marki sínu í leiknum í dag. Vísir/Vilhelm

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir kom Íslandi yfir strax á þriðju mínútu gegn Ítölum í dag en átti möguleika á að bæta við marki í síðari hálfleiknum en brást þá bogalistin. Hún var svekkt í leikslok.

„Ég fann á mér fyrir leikinn að ég væri að fara að skora mark í þessum leik. Þau hefðu mátt vera tvö en ég er sátt með eitt,“ sagði Karólína Lea í samtali við Svövu Kristínu eftir leikinn.

„Ég var að hitta boltann vel í upphitun og skoraði úr öllum skotunum mínum þannig að ég fann á mér að ég væri að skora í þessum leik. Það er samt margt sem hefði mátt fara betur í leiknum.“

Karólína Lea var á því að Ísland hefði getað stolið sigrinum í lokin.

„Mér fannst við vera mikið í vörn og ekki eiga mikið breik sóknarlega í fyrri hálfleiknum. Við áttum hins vegar góð færi í seinni hálfleik sem við hefðum átt að skora úr. Þær voru ekki að skapa sér þannig, mér fannst við góðar varnarlega og þær voru ekki að opna okkur mikið. Ég er svekkt að við höfum ekki haldið betur í boltann og stolið þessu í lokin.“

Karólína Lea fékk gott færi í seinni hálfleiknum og var svekkt að hafa ekki nýtt það.

„Ég mun ekki sofa mikið í nótt, ég gleymi þessu á morgun,“ sagði hún og tók undir orð Svövu Kristínar um að skora gegn Frökkum.

„Vonandi, ég reyni að hjálpa liðinu eitthvað.“


Tengdar fréttir

Gunnhildur Yrsa: Sandra átti stórkostlegan leik

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir stóð í ströngu á miðju íslenska liðsins í dag. Hún var stolt af liðsfélögum sínum í dag og sagði að þær ætluðu að fara erfiðu leiðina í 8-liða úrslitin.

Einkunnir Íslands: Sandra maður leiksins í markinu

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Ítalíu í öðrum leik liðsins á Evrópumótinu á Englandi. Hér er hægt að sjá einkunnir íslensku leikmannanna í leiknum þar sem Sandra Sigurðardóttir í markinu var valin maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×