Erlent

Rússar segjast einungis hafa notað lítinn hluta hernaðarmáttar síns

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vladimir Putin hefur ógnað Vesturveldum í auknum mæli á síðustu dögum.
Vladimir Putin hefur ógnað Vesturveldum í auknum mæli á síðustu dögum. AP/(Dmitry Azarov

Rússland hefur einungis notað lítinn hluta mögulegs hernaðarmáttar síns í innrás sinni í Úkraínu, að sögn yfirvalda í Kreml.

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, gaf Vesturveldunum eina óheillavænlegustu aðvörun sína síðan stríðið hófst á fimmtudag, þegar hann hélt því fram að Rússar hefðu varla hafið innrás sína í Úkraínu og skoraði á Vesturveldin að reyna að sigra Rússland á vígvellinum.

Pútín sakar bandamenn Úkraínu um að ýta undir meiri fjandskap. „Vesturveldin vilja berjast við okkur þangað til síðasti Úkraínumaður fellur,“ segir Pútín. 

Hann segir Vesturveldunum velkomið að berjast við Rússa en að það myndi enda í hörmungum fyrir Úkraínu.

„Í dag heyrum við að þeir vilji sigra okkur á vígvellinu. Hvað er hægt að segja? Látum þá reyna. Við höfum heyrt það margoft að Vesturveldin vilji berjast við okkur þangað til síðasti Úkraínumaður fellur, allt virðist stefna í það.“

Á upplýsingafundi í dag, áréttaði Dmitry Peskov, talsmaður í Kreml, þessa afstöðu Rússa til stríðsins.

„Geta Rússlands er svo mikil að einungis lítill hluti hernaðarmáttarins er notaður í þessari sérstöku hernaðaraðgerð,“ sagði Peskov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×