Viðskipti innlent

Margrét ráðin að­stoðar­dag­skrár­stjóri RÚV

Árni Sæberg skrifar
Margrét Jónasdóttir hefur störf á RÚV 1. september.
Margrét Jónasdóttir hefur störf á RÚV 1. september. Aðsend

Margrét Jónasdóttir hefur verið ráðin aðstoðardagskrárstjóri RÚV. Hún mun hafa faglega umsjón með innkaupum og framleiðslu á heimildaefni. Jafnframt mun hún leiða, í samstarfi við dagskrárstjóra,hugmyndavinnu, þróun, framleiðslu, kaup, stefnumótun, gæðamat og gæðeftirlit með öllu heimildaefni fyrir sjónvarp.

Í tilkynningu segir að meðal fyrirhugaðra verkefna sé að endurskipuleggja ferla sem snúa að mati, vali, innkaupum og samframleiðslu RÚV á heimildaefni af hvers kyns toga og auka þannig skilvirkni og gagnsæi, styrkja gæðastjórnun og miðlun og almennt efla þátt heimildaefnis í dagskrá RÚV.

Margrét er með meistaragráðu í samtímasögu frá University College London og hefur stundað á meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Hún á að baki langan og farsælan feril í framleiðslu og handritsskrifum heimildarmynda, lengst af í starfi yfirmanns heimildarmyndadeildar og aðalframleiðanda hjá Sagafilm.

Meðfram framleiðandastarfi hefur Margrét gegnt ýmiss konar nefndarstörfum og setið í stjórnum og dómnefndum sem tengjast kvikmyndagerð og heimildarmyndaframleiðslu, bæði hérlendis og erlendis.

„Reynsla Margrétar, fyrri störf hennar og menntun gera að verkum að hún býr yfir afar yfirgripsmikilli þekkingu á framleiðslu heimildaefnis sem mun tvímælalaust nýtast í starfi hennar fyrir RÚV og almennt reynast íslenskri heimildarmyndagerð afar vel,“ er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV. 

„Framundan eru spennandi verkefni við að skerpa á ferlum í kringum framleiðslu og innkaup heimildaefnis til að styrkja enn frekar stöðu heimildaefnis í dagskrárframboði RÚV, bæði í línulegri dagskrá og spilara. Það er mikill fengur í að fá Margréti til að leiða þá mikilvægu vinnu,“ er haft eftir honum.

Margrét tekur formlega til starfa 1. september í dagskrárdeild sjónvarps hjá RÚV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×