Formúla 1

Verstappen segir tengdaföður sinn ekki vera rasista en fordæmir ummælin

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen segir Nelson Piquet ekki vera rasista, en að ummæli hans um Lewis Hamilton hafi ekki átt rétt á sér.
Max Verstappen segir Nelson Piquet ekki vera rasista, en að ummæli hans um Lewis Hamilton hafi ekki átt rétt á sér. Vince Mignott/MB Media/Getty Images

Max Verstappen, ríkjandi heimsmeistari í Formúlu 1, segir að faðir kærustu sinnar, Nelson Piquet, sé ekki rasisti, en fordæmir ummæli hans um Lewis Hamilton og segir þau hafi verið mjög móðgandi.

Eins og áður hefur verið fjallað um notaði Piquet rasísk orð þegar hann talaði um Lewis Hamilton, sjöfaldan heimsmeistara í Formúlu 1, í hlaðvarpsþætti á portúgölsku þar sem var verið að ræða umdeildan árekstur þeirra Hamilton og Verstappen í Silverstone kappakstrinum.

Piquet hefur beðist afsökunar á ummælum sínum og viðurkennt að þau hafi verið illa úthugsuð. Hann sagði hins vegar að hann hafi ekki ætlað sér að gera lítið úr Hamilton vegna húðlitar hans og að þýðingin á orðum hans hafi verið röng. Þrátt fyrir það hefur Piquet verið rekinn úr breska akstursíþróttasambandinu.

Verstappen hefur nú komið Piquet til varnar og segir að þrátt fyrir að ummælin hafi verið mjög móðgandi þá sé Piquet klárlega ekki rasisti.

„Það eru allir á móti rasisma. Ég held að það sé alveg augljóst,“ sagði Verstappen í viðtali fyrir Silverstone kappaksturinn sem fer fram um helgina.

„Mér finnst orðalagið sem hann notaði ekki eiga rétt á sér, þó að við komum frá mismunandi menningarheimum og að þetta séu kannski orð sem voru notuð þegar hann var yngri.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra af og passa okkur að nota ekki þetta orð í framtíðinni. Þetta er mjög móðgandi, sérstaklega í dag.“

„Ég hef eytt svolitlum tíma með Nelson [Piquet] og hann er klárlega ekki rasisti. Hann er reyndar mjög ljúfur og rólegur maður.“

„Í yfirlýsingunni sem hann sendi frá sér þá er hægt að horfa á þetta orð á tvo vegu, en ég held samt að það sé betra að sleppa því bara að nota það. Þetta snýst ekki bara um þetta orð. Það að tala illa um hvern sem er, sama af hvaða kynþætti hann er, á ekki rétt á sér,“ sagði Verstappen að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×