Viðskipti innlent

Sér fram á milljarða­tap ef þorsk­kvóti verður minnkaður frekar

Kjartan Kjartansson skrifar
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Vísir/Arnar

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segist sjá fram á að útflutningstekjur af sjávarafurðum dragist saman um allt að sjö milljarða króna fari sjávarútvegsráðherra að ráðlegginum Hafrannsóknastofnunar um minni þorskkvóta.

Hafró lagði til að aflamark þorsks yrði lækkað um sex prósent á næsta fiskveiðiári í dag. Kvótinn færi úr 222 þúsund tonnum í 209 þúsund. Sjávarútvegsráðherra gefur út kvóta síðar á þessu ári.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, að þorskvótinn hefði verið minnkaður um 23 prósent á þremur árum. Það jafnaðist á við um þriggja mánaða veiðar.

Sala á þorski er um helmingur af heildarverðmæti útflutnings sjávarafurða. Frekari samdráttur á þorskkvóta drægi því verulega úr útflutningstekjum.

„Þetta er allt háð gengi, hvaða afurðir við erum að vinna, hvaða verð við erum að fá fyrir fiskinn. En ef við myndum miða við að veröldin væri óbreytt frá fyrra ári, þá er þetta kannski hvað varðar heildina fyrir sjávarútveg, þá er þetta kannski samdráttur upp á kannski sjö milljarða af heildarútflutningsverðmæti,“ sagði hún.

Um lækkun aflamarks þorsks sagði Hafró að hana mætti rekja til lækkunar á mati á viðmiðunarstofni í fyrra miðað við undanfarin ár og innbyggðrar sveiflujöfnunar í aflareglu. Hins vegar væri gert ráð fyrir að viðmiðunarstofninn færi hægt vaxandi næstu tvö til þrjú árin þar sem árgangar frá 2019 og 2020 væru metnir yfir meðallagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×