Fótbolti

Hollendingar stálu sigrinum gegn Wales | Færeyingar snéru taflinu við

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Memphis Depay var hetja Hollendinga í kvöld.
Memphis Depay var hetja Hollendinga í kvöld. James Williamson - AMA/Getty Images

Það var nóg um að vera í Þjóðadeildinni í fótbolta í kvöld, en alls voru spilaðir tólf leikir. Hollendingar unnu dramatískan 3-2 sigur gegn Wales og Færeyingar gerðu 2-2 jafntefli gegn Lúxemborg eftir að hafa lent 2-0 undir.

Noa Lang kom Hollendingum yfir gegn Wales eftir rétt rúmlega 15 mínútna leik áður en Cody Gakpo tvöfaldaði forystu liðsins sex mínútum síðar.

Brennan Johnson minnkaði muninn fyrir Wales á 26. mínútu og staðan var því 2-1 þegar flautað var til hálfleiks.

Lengst af leit út fyrir að þetta yrðu lokatölur leiksins, en lokamínúturnar buðu upp á nóg af dramatík.

Á 90. mínútu fékk Tyrell Malacia dæmda á sig vítaspyrnu fyrir að hrinda Connor Roberts inni í vítateig. Varamaðurinn Gareth Bale fór á punktinn og jafnaði metin fyrir velska liðið á annarri mínútu uppbótartíma.

Velska liðið var enn að hugsa um markið þegar Hollendingar tóku miðjuna og skoruðu strax í næstu sókn. Þar var á ferðinni Memphis Depay og niðurstaðan varð því dramatískur 3-2 sigur Hollendinga.

Þá sóttu Færeyingar gott stig er liðið heimsótti Lúxemborg. Heimamenn komust í 2-0 með mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn, en Joannes Bjartalid skoraði tvö mörk með stuttu millibili í síðari hálfleik og tryggði Færeyingum stig.

Úrslit kvöldsins

A-deild, riðill 3:

England 0-4 Ungverjaland

Þýskaland 5-2 Ítalía

A-deild, riðill 4:

Holland 3-2 Wales

Pólland 0-1 Belgía

B-deild, riðill 1:

Armenía 1-4 Skotland

Úkraína 1-1 Írland

B-deild, riðill 3:

Bosnía og Hersegóvína 3-2 Finnland

Rúmenía 0-3 Svartfjallaland

C-deild, riðill 1:

Lúxemborg 2-2 Færeyjar

Tyrkland 2-0 Litháen

D-deild, riðill 1:

Moldavía 2-1 Andorra

Liechtenstein 0-2 Lettland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×