Handbolti

Ólafur Andrés yfir­gefur Montpelli­er

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Andrés í leik með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í janúar.
Ólafur Andrés í leik með íslenska landsliðinu á Evrópumótinu í janúar. Sanjin Strukic/Getty Images

Ólafur Andrés Guðmundsson mun ekki leika með Montpellier í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta á næstu leiktíð. Hann er einn fjögurra leikmanna liðsins sem fær ekki áframhaldandi samning hjá félaginu.

Vefsíða Montpellier greinir frá að fjórir af leikmönnum liðsins verði ekki áfram í herbúðum þess á næstu leiktíð. Íslenska skyttan Ólafur Andrés er einn þeirra. Liðið endaði í 4. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar og fór alla leið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Hinn 32 ára gamli Ólafur Andrés gekk í raðir Montpellier eftir virkilega farsælan tíma í Svíþjóð þar sem hann lék með Kristianstad. Hann ákvað að söðla um og halda til Frakklands síðasta sumar en vistaskiptin hafa ekki alveg gengið upp.

Ólafur Andrés hefur verið að glíma við mikil meiðsli á leiktíðinni og náði til að mynda ekkert að spila eftir að franska deildin fór af stað á nýjan leik í febrúar eftir að hlé hafði verið gert vegna Evrópumótsins.

Alls tók Ólafur Andrés þátt í fjórum leikjum Íslands á EM en hann var einn þeirra leikmanna sem greindist með Covid-19 á meðan mótinu stóð.

Ekki er víst hvað tekur við hjá Ólafi Andrési en hann hefur leikið sem atvinnumaður í fjórum löndum – Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi og nú Frakklandi – undanfarinn áratug.

Handbolti.is greindi fyrst frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×