Handbolti

Er­lingur tekur aftur við Eyjaliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Richardsson tekur við Eyjamönnum á nýjan leik.
Erlingur Richardsson tekur við Eyjamönnum á nýjan leik. Vísir/Hulda Margrét

Erlingur Birgir Richardsson verður aftur þjálfari karlaliðs ÍBV í handbolta en Eyjamenn tilkynntu í kvöld að hann hafi skrifað undir tveggja ára samning.

Erlingur tekur við liðinu af Magnúsi Stefánssyni sem færir sig yfir á kvennaliðið eins og áður hafði komið fram.

Erlingur gerði Eyjamenn að Íslandsmeisturum þegar hann þjálfaði liðið síðast vorið 2023.

Hann tilkynnti þá fyrir úrslitakeppnina að hann væri að hætta með liðið en gerði Eyjastrákana síðan að Íslandsmeisturum.

Erlingur er 52 ára gamall og þjálfari ÍBV síðast frá 2018 til 2023. Hann gerði einnig karlalið HK að Íslandsmeisturum árið 2012.

Erlingur hefur þjálfað hollenska landsliðið og landslið Sádí Arabíu á síðustu árum sem og að þjálfa þýska stórliðið Füchse Berlin og austurríska félagið SG Handball West Wien.

Erlingur er að taka við karlaliði ÍBV í þriðja sinn á ferlinum en hann þjálfaði liðið fyrst á árunum 2002 til 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×