Golf

Tiger Woods ekki með á Opna bandaríska: „Líkaminn þarf meiri tíma“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tiger Woods verður ekki með á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í næstu viku.
Tiger Woods verður ekki með á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi í næstu viku. Richard Heathcote/Getty Images

Tiger Woods, einn besti kylfingur allra tíma, hefur staðfest að hann muni ekki taka þátt á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi sem hefst í næstu viku.

Tiger lenti í alvarlegu bílslysi í febrúar á seinasta ári og hefur því lítið getað keppt síðan þá. Hann er enn að ná sér eftir slysið og þurfti að draga sig úr keppni á PGA-meistaramótinu í seinasta mánuði eftir þrjá hringi.

Kylfingurinn ætlar sér þó enn að taka þátt í Opna breska meistaramótinu í næsta mánuði, en Opna bandaríska hefst á fimmtudaginn eftir rúma viku.

„Ég hefr látið USGA (bandaríska golfsambandið) vita að ég ætla mér ekki að keppa á Opna bandaríska meistaramótinu þar sem að líkaminn minn þarf meiri tíma til að styrkjast fyrir risamót í golfi,“ skrifaði Tiger á Twitter-síðu sína.

„Ég vona og ætla mér að verða tilbúinn til að spila á Írlando á JP McManus Pro-Am mótinu og á Opna breska í næsta mánuði. Ég hlakka til að koma mér á völlinn sem fyrst.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×