Fótbolti

Austurríki ekki í vandræðum með Króata | Belgar rassskelltir á heimavelli

Atli Arason skrifar
Louis van Gaal þakkar Nathan Ake fyrir hans framlag í sigrinum á Belgum.
Louis van Gaal þakkar Nathan Ake fyrir hans framlag í sigrinum á Belgum. Getty Images

Austurríki leit vel út í fyrsta leik Ralf Rangnick, liðið vann Króata 0-3 á útivelli á meðan Louis Van Gaal sökkti Belgum á þeirra eigin heimavelli, 1-4.

Belginn Kevin De Bruyne hafði áður gefið það út að hann væri ekki hrifinn af Þjóðadeildinni sem væri bara til þess gerð að auka álagið á leikmenn. Það virðist vera hugarfar Belga almennt sem litu ekki vel út á heimavelli gegn Hollendingum. Holland vann 1-4 og er þetta í fyrsta skipti sem Belgía tapar með meira en einu marki síðan í nóvember 2018.

Steven Bergwijn gerði fyrsta mark leiksins á 40. mínútu áður en Memphis Depay tvöfaldaði forystu Hollendinga á 51. mínútu. Depay átti svo eftir að tvöfalda markafjölda sinn tæpu korteri síðar en þess á milli skoraði Denzel Dumfries á 61. mínútu og Hollendingar 0-4 yfir í Brussel.

Michy Batshuayi minnkaði muninn fyrir Belga á þriðju mínútu uppbótatíma síðari hálfleiks og þar við sat. Lokatölur 1-4 fyrir Hollendingum í þessum nágrannaslag.

Holland er á toppi 4. riðils A-deildar með 3 stig, jafn mörg stig og Pólland sem vann Wales með einu marki á miðvikudaginn.

Ralf Rangnick var að stýra sínum fyrsta leik með landsliði Austurríkis eftir að hann sagði skilið við Manchester United. Austurríkis menn settu á sýningu og unnu þriggja marka útisigur á Króötum, 0-3.

í sínum 99. landsleik gerði Marko Arnautovic fyrsta mark leiksins á 41. mínútu áður en Michael Gregoritsch og Marcel Sabitzer gerðu tvö mörk fyrir Austurríki á þriggja mínútna kafla á milli 54. og 57. mínútu.

Austurríki er ásamt Dönum á toppi 1. riðils A-deildar en bæði lið eru með 3 stig eftir fyrstu umferðina. Frakkar og Króatar eru hins vegar í 3. og 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×