Körfubolti

Sverrir hjálpar arf­taka sínum og Grinda­vík án þjálfara

Sindri Sverrisson skrifar
Sverrir Þór Sverrisson þjálfaði síðast lið Grindavíkur síðustu mánuði leiktíðarinnar en er nú kominn aftur til Keflavíkur.
Sverrir Þór Sverrisson þjálfaði síðast lið Grindavíkur síðustu mánuði leiktíðarinnar en er nú kominn aftur til Keflavíkur. vísir/vilhelm

Körfuboltaþjálfarinn Sverrir Þór Sverrisson er snúinn aftur til Keflavíkur og verður aðstoðarþjálfari karlaliðs félagsins á næstu leiktíð.

Sverrir verður þar með Hjalta Þór Vilhjálmssyni til aðstoðar. Hjalti hefur stýrt Keflvíkingum síðustu þrjú ár eftir að hafa tekið við liðinu af Sverri sem steig til hliðar vegna anna á öðrum vettvangi.

Sverrir þjálfaði síðast lið Grindavíkur sem hann tók við í febrúar eftir að Daníel Guðni Guðmundsson var látinn fara. Grindvíkingar eru þar með án þjálfara sem stendur.

Á heimasíðu keflavíkur segir að mikil ánægja ríki með endurkomu Sverris:

„Sverrir hefur margsannað sig sem þjálfari og klárt mál að hann mun færa liðinu og klúbbnum í heild stemmningu og gleði, eitthvað sem honum fylgir,“ segir Magnús Sverrir Þorsteinsson, nýr formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur. 

„Þá mun reynsla hans, sigurvilji og elja koma til með að hjálpa leikmönnum og öllum í kringum klúbbinn. Við höfum rosalega mikla trú á því að hann og Hjalti komi til með að mynda gott þjálfarapar og styðja hvorn annan til góðra verka,“ segir Magnús.

„Mjög spenntur að koma inn sem aðstoðarmaður Hjalta“

Keflavík endaði í 5. sæti Subway-deildarinnar á síðustu leiktíð en féll út gegn Tindastóli í 8-liða úrslitum.

Sjálfur segist Sverrir vera klár í slaginn: „Mér líst mjög vel á það sem er í gangi í Keflavík, mikill kraftur í nýrri stjórn að byggja ofan á síðustu tímabil og gera enn betur. Ég er þar að leiðandi mjög spenntur að koma inn sem aðstoðarmaður Hjalta og hef fulla trú á að við munum verða öflugt teymi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×