Fótbolti

Deschamps yfirgaf franska hópinn vegna andláts föður síns

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Didier Deschamps fékk að yfirgefa franska landsliðshópinn til að vera með ættingjum sínum á erfiðum tímum.
Didier Deschamps fékk að yfirgefa franska landsliðshópinn til að vera með ættingjum sínum á erfiðum tímum. John Berry/Getty Images

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins í fótbolta, þurfti að yfirgefa hópinn í dag, degi eftir að liðið kom saman til æfinga, eftir að faðir hans lést.

Noel Le Graet, forseti franska knattspynusambandsins, staðfesti fregnirnar og vottaði þjálfaranum samúð sína.

„Okkur bárust þær sorglegu fréttir að faðir Didiers hafi látist í morgun. Didier fór til að vera með ættingjum sínum og ég fullvissa hann um vináttu mína og stuðning á þessum erfiðu tímum,“ sagði Le Graet.

Frakkar mæta Dönum á Stade de France í Þjóðadeildinni næstkomandi föstudag, en ekki er víst hvort Deschamps verði á hliðarlínunni í þeim leik. Guy Stephan, aðstoðarþjálfari liðsins, stjórnaði æfingunni í dag.

Franska liðið leikur fjóra leiki á ellefu dögum í þessum landsleikjaglugga. Ásamt því að mæta Dönum leikur liðið í tvígang gegn Króötum og einn leik gegn Austurríkismönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×