Innlent

„Drauga­gangur“ varð til þess að Guðni Th. birtist á sjón­varps­skjáum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hvorki Hildur Sverrisdóttir (t.v.) né Þórunn Sveinbjarnardóttir heita í raun og veru Guðni Th. Jóhannesson, þrátt fyrir að sjónvarpsútsending Alþingis hafi gefið annað í skyn.
Hvorki Hildur Sverrisdóttir (t.v.) né Þórunn Sveinbjarnardóttir heita í raun og veru Guðni Th. Jóhannesson, þrátt fyrir að sjónvarpsútsending Alþingis hafi gefið annað í skyn. Vísir

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, voru báðar merktar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar þær voru í ræðustól í umræðum á Alþingi í dag.

Í sjónvarps- og netútsendingum frá Alþingi er alla jafna tilgreint hver stendur í pontu í hvert skipti, og fyrir hvaða flokk þeir sitja á þingi. Hildur Sverrisdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir þurftu þó að sætta sig við annað nafn en sitt eigið þegar þær ávörpuðu þingið í dag.

Þórunn Sveinbjarnardóttir í ræðupúlti Alþingis í dag.Skjáskot

Nafn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, var sýnt á skjánum í staðinn fyrir nöfn þingmannanna. Þá var forsetinn sagður vera í Samfylkingunni og vera framsögumaður.

Hildur, sem var í pontu að ræða frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum, birti skjáskot af mistökunum á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún það vera „ákveðinn skellur“ að hún hafi verið talin vera samfylkingarmaður og forseti Íslands. 

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir Þorsteinn Magnússon, varaskrifstofustjóri Alþingis, að um hafi verið að ræða smávægileg tæknivandamál. 

„Það var smá „draugagangur“ í útsendingarkerfinu okkar í dag. Það kemur fyrir að tæknin stríði okkur eins og öðrum landsmönnum, en þau nafnabrengsl sem urðu voru strax leiðrétt,“ segir Þorsteinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×