Íslenski boltinn

Breiða­blik ekki byrjað jafn illa í ellefu ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hildur Antonsdóttir reynri að sannfæra Vilhjálm Alvar um að hleypa Blikum upp töfluna.
Hildur Antonsdóttir reynri að sannfæra Vilhjálm Alvar um að hleypa Blikum upp töfluna. Vísir/Diego

Bikarmeistarar Breiðabliks hafa farið skelfilega af stað í Bestu deild kvenna í fótbolta. Raunar hefur liðið ekki byrjað Íslandsmót jafn illa síðan 2011 ef stigasöfnun eftir sex umferðir er tekin saman.

Fyrir tímabilið var búist við því að Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Breiðabliks myndu berjast um titilinn eins og hefur verið venjan undanfarin ár. 

Bæði lið hafa mátt þola óvænt töp í upphafi móts en Valur er hins vegar á toppi deildarinnar. Breiðablik er ekki einu sinni í efri hluta deildarinnar.

Breiðablik tapaði óvænt gegn Keflavík í annarri umferð Bestu deildarinnar en annars var liðið í fínum málum þegar fjórar umferðir voru búnar. Þrír sigrar í hús og markatalan 11-2. Síðan þá hefur hins vegar ekkert gengið upp.

ÍBV mætti á Kópavogsvöll og vann 0-1 útisigur í fimmtu umferð og Valur gerði svo slíkt hið sama í vikunni. Vörn Breiðabliks hefur staðið vaktina með prýði til þessa enda liðið aðeins fengið á sig fjögur mörk í sex leikjum. 

Sóknarleikurinn hefur hins vegar hikstað enda liðið aðeins skorað í helming leikja sinna í sumar. 

Ásta Eir Árnadóttir er fyrirliði Breiðabliks. Hér er hún í leiknum gegn Val.Vísir/Diego

Sem stendur eru Íslandsmeistarar Vals með sex stiga forystu og ljóst að Breiðablik þarf að bíta í skjaldarrendur ef ekki á illa að fara líkt og sumarið 2011. Þá endaði Breiðablik í 6. sæti með aðeins 23 stig.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×