Viðskipti innlent

Stóð við sitt og hefur greitt um hálfan milljarð í skatta

Eiður Þór Árnason skrifar
Hjónin Haraldur Þorleifsson og Margrét Rut Eddudóttir listakona.
Hjónin Haraldur Þorleifsson og Margrét Rut Eddudóttir listakona. Aðsend

Haraldur Þorleifsson sem seldi fyrirtæki sitt Ueno til Twitter í fyrra samdi við félagið um að stærstur hluti kaupverðsins yrði greiddur með launagreiðslum svo hann gæti greitt skatta af sölunni á Íslandi.

Þetta staðfestir Haraldur í samtali við Viðskiptablaðið en við söluna varð hann starfsmaður Twitter og fær launagreiðslur í gegnum dótturfélag þess í Hollandi. Samkvæmt ársreikningi félagsins voru laun og launatengd gjöld vegna eins starfsmanns á Íslandi rúmlega 1,1 milljarður króna árið 2021. Áætlar Viðskiptablaðið að Haraldur hafi greitt um hálfan milljarð króna af þeirri upphæð í tekjuskatt og launatengd gjöld.

Salan á tækni- og hönnunarfyrirtækinu til Twitter vakti mikla athygli og ekki síst yfirlýsingar Haraldar um að hann hafi flutt til Íslands áður en salan gekk í gegn í þeim tilgangi að greiða skatta af sölunni hér á landi. Hann sagðist með þessu vilja styðja við skóla-, heilbrigðis-, og velferðarkerfi sem hafi hjálpað sér og öðru fólki úr lágtekjufjölskyldum að dafna.

Unnið fyrir fjölmörg stórfyrirtæki

Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en talið er að það hafi hlaupið á milljörðum króna. Ueno skilaði 730 milljóna króna hagnaði árið 2020 samkvæmt ársreikningi og nam eigið fé 1,48 milljörðum króna.

Við kaupin var fyrirtækið með starfstöðvar í Reykjavík, San Francisco, New York og Los Angeles þar sem það starfaði fyrir stórfyrirtæki á borð við Twitter, Apple, Uber, Reuters, Visa, Discovery og Walmart.

Rætt var við Harald Þorlefsson í Íslandi í dag í febrúar.


Tengdar fréttir

„Stærsta sorg sem ég hef lent í“

Haraldur Ingi Þorleifsson stofnaði sitt eigið fyrirtæki í stofunni heima hjá sér árið 2014. Hugmyndin var þá að stofna lítið félag utan um þau verkefni sem hann var sjálfur að vinna í lausamennsku sem hönnuður á ýmiskonar vefsíðum, öppum og öðru skjáefni.

Vill jafna leikinn og hjálpa þol­endum að rjúfa þögnina

Haraldur Þorleifsson, stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno, tilkynnti í dag að hann vilji aðstoða þolendur kynferðisofbeldis við að losna undan trúnaðarsamningum við gerendur. Hann segist vilja jafna leikinn og hjálpa þolendum að rjúfa þögnina.

Nýtir peningana frá Twitter til að opna kaffi­hús og bíó á uppáhalds staðnum

Fé­lagið Unn­ar­stíg­ur ehf., sem er í eigu Har­ald­ar Inga Þor­leifs­son­ar, hef­ur keypt jarðhæðina við Tryggvagötu 11 í Reykja­vík­. Haraldur er stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno en hann seldi félagið til Twitter um síðustu áramót. Það er því vel við hæfi að hann hafi greint frá fasteignakaupunum á Twitter-síðu sinni í gær.

Twitter kaupir íslenskt fyrirtæki

Bandaríski samfélagsmiðillinn Twitter hefur keypt íslenska tækni- og hönnunarfyrirtækið Ueno sem stofnað var árið 2014 og hefur vaxið hratt undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×