Fréttir

Búið að mynda meirihluta í Mosfellsbæ

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, verður formaður bæjarráðs.
Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, verður formaður bæjarráðs. Vísir/Vilhelm

Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn hafa komist að samkomulagi um myndun meirihluta í Mosfellsbæ.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá oddvitum flokkanna sem send var fjölmiðlum rétt í þessu.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í Mosfellsbæ í nýafstöðnum bæjarstjórnarkosningum þar sem flokkurinn fór úr því að eiga engan fulltrúa í bæjarstjórn yfir í fjóra.

Vinir Mosfellsbæjar, sem hlutu einn mann voru upprunalega með í meirihlutaviðræðum þessa þriggja flokka. Framsóknarflokkurinn sleit hins vegar viðræðum við framboðið en hélt áfram viðræðum við Viðreisn og Samfylkinguna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ, Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar og Anna Sigríður Guðnadóttir og oddviti Samfylkingarinnar.Aðsend

Þær viðræður hafa nú borið árangur. Stefnt er að því að kynna málefnasafning við undirritun hans, sem boðað verður til fyrir fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar.

Í tilkynningunni kemur fram að flokkarnr þrír séu sammála um að ráðið verði starf bæjarstjóra Mosfellsbæjar með aðstoð utanaðkomandi aðila, líkt og það orðað.

Samkomulag er um að Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar, verði formaður bæjarráðs. Anna Sigríður Guðnadóttir, oddviti Samfylkingarinnar, verður forseti bæjarstjórnar og Lovísa Jónsdóttir, oddviti Viðreisnar, tekur við því embætti að einu ári liðnu.

Samtals eru flokkarnir þrír með sex fulltrúa meirihluta í bæjarstjórn sem er skipuð ellefu bæjarfulltrúum.

Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafa undanfarin ár farið með völdin í bænum en nú verður breyting á.


Tengdar fréttir

Framsókn sigurvegari á landsvísu

Framsóknarflokkur vann stórsigur í kosningum í gær víða um land, sérstaklega í kringum höfuðborgarsvæðið. Flokkurinn er í lykilstöðu þegar kemur að stjórnarmyndun í borginni eftir fall síðasta meirihluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×