Innlent

Þenslu orðið vart við Grindavík

Árni Sæberg skrifar
Land hefur risið við Þorbjörn við Grindavík undanfarið.
Land hefur risið við Þorbjörn við Grindavík undanfarið. Stöð 2/Egill

Töluverð skjálftavirkni hefur verið á suðvesturhorni landsins síðustu daga og mælingar Háskóla Íslands benda til þess að land hafi risið við Grindavík frá mánaðarmótum.

Sex skjálfta yfir þremur að stærð hefur orðið vart síðasta sólarhringinn, sá stærsti mældist 4,8 að stærð og kom upp við Þrengslin um klukkan fimm í dag.

Um 500 skjálftar hafa verið skráðir í sjálfvirkt mælakerfi Veðurstofunnar síðustu 48 klukkustundir, að því er segir í færslu á Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands á Facebook.

„Þessi virkni kemur á sama tíma og þenslu hefur orðið vart á nýjan leik norðan Grindavíkur, við Þorbjörn og Svartsengi,“ segir í færslunni.

Landrisið við Þorbjörn hefur verið tuttugu til þrjátíu millimetrar það sem af er mánuði. Slík þensla geti orsakað aukna spennu á Reykjanesskaganum og ýtir undir aukna skjálftavirkni.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruváreftirlits hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ekki væri ósennilegt að stóri skjálftinn í dag tengdist jarðhræringum á Reykjanesi.


Tengdar fréttir

Stærsti skjálftinn á svæðinu síðan kerfið var sett upp 1991

Snarpur jarðskálfti varð í fjöllunum norðan við Lambafell við Þrengslin í dag. Hann var 4,8 að stærð. Jarðskjálftafræðingur segir auknar líkur á frekari jarðskjálfavirkni á svæðinu. Skjálftinn í dag er sá stærsti sem mælst hefur á svæðinu frá því að mælakerfi Veðurstofunnar var sett upp árið 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×