Fótbolti

Neitar því að hafa verið rekinn úr liðinu fyrir að prumpa í klefanum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcelo Guedes var að eigin sögn ekki rekinn frá Lyon fyrir að leysa vind í klefanum.
Marcelo Guedes var að eigin sögn ekki rekinn frá Lyon fyrir að leysa vind í klefanum. Vísir/Getty

Í gær fóru af stað furðulegar sögur af því að Marcelo Guedes, fyrrum leikmaður franska liðsins Lyon, hafi verið rekinn úr liðinu fyrir að prumpa í klefanum og hlæja að því eftir 3-0 tap liðsins gegn Angers í ágúst á síðasta ári. Leikmaðurinn hefur hins vegar neitað þessum sögusögnum.

Það kom mörgum stuðningsmönnum Lyon á óvart þegar Marcelo var færður niður í varalið félagsins í ágúst á síðasta ári og þeir sömu klóruðu sér í höfðinu yfir því þegar samningi leikmannsins var sagt upp nú í janúar.

Það kom svo enn fleirum á óvart þegar franski miðillinn L'Equipe greindi frá því í gær að ástæða brottrekstursins hafi verið vindgangur leikmannsins inni í klefa eftir 3-0 tap Lyon gegn Angers þar sem Marcelo skoraði sjálfsmark. Samkvæmt greinum L'Equipe og fleiri miðla á Marcelo að hafa prumpað inni í klefa eftir leikinn og hlegið að því með liðsfélögum sínum.

Þessi gjörningur hans á svo að hafa farið sérstaklega í taugarnar á yfirmanni knattspyrnumála félagsins, Juninho Pernambucano, og í kjölfarið hafi samningi Marcelo verið sagt upp.

Eftir að hafa ekki látið heyra í sér á Twitter síðan í október á síðasta ári fann Marcelo sig hins vegar knúinn til að snúa aftur á samfélagsmiðilinn í gær til að neita þessum vægast sagt furðulegu sögum.

„Þökk sé L'Equipe þá þarf ég að snúa aftur á Twitter eftir langa fjarveru til að neita þessum ásökunum. Blaðamennska í dag er algjört grín,“ skrifaði Marcelo á Twitter í gær.

Eitthvað hlýtur leikmaðurinn að hafa til síns máls þar sem Juninho svaraði honum og grínaðist með að prump varnarmanna þyrfti að vera hátt, langt og illa lyktandi. Hans hafi hins vegar bara verið hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×