Erlent

Ræðu Pútín á „sigurdeginum“ beðið með eftirvæntingu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigurdagurinn er Rússum afar mikilvægur og einna víst að yfirlýsinga er að vænta í ræðu Pútín, hvers efnis sem þær kunna að verða.
Sigurdagurinn er Rússum afar mikilvægur og einna víst að yfirlýsinga er að vænta í ræðu Pútín, hvers efnis sem þær kunna að verða. AP/Sputnik/Mikhail Metzel

Heimsbyggðin bíður þess nú með eftirvæntingu að Vladimir Pútín Rússlandsforseti ávarpi rússnesku þjóðina í dag, þegar Rússar fagna sigri sínum yfir nasistum í seinni heimstyrjöldinni.

Efnt verður til hátíðarhalda víða um Rússland en aðalviðburðurinn verður gríðarmikil skrúðganga og hergagnasýning á Rauða torginu í Moskvu.

Menn segja nokkra möguleika í stöðunni; meðal annars að Pútín magni spennuna með því að lýsa formlega yfir stríði við Úkraínu, eða dragi úr henni með því að lýsa yfir sigri í hinni „sérstöku hernaðaraðger“.

Þá er mögulegt að hann muni fara millileið og lýsa yfir einhvers konar áfangasigri en um leið undirbúa rússnesku þjóðina fyrir langa og stranga baráttu.

Stjórnmálaspekingar og embættismenn á Vesturlöndum hafa lengi rætt um það að stjórnvöld í Moskvu hafi löngum stefnt að því að geta lýst yfir sigri í Úkraínu á „sigurdeginum“ 9. maí.

Það er hins vegar erfitt að sjá hvernig Pútín myndi rökstyðja slíka yfirlýsingu, þar sem rússneski herinn er langt frá því að hafa náð settum markmiðum; að „afhervæða og afnasistavæða“ Úkraínu.

Þá hafa þeir hvorki „frelsað“ Donbas, eins og til stóð, né náð yfirráðum meðfram allri strandlengju landsins, frá Transnistríu til Donbas. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×