Erlent

Bætti sitt eigið met með 26. ferðinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Kami Rita hefur nú farið upp á topp Mount Everest alls 26 sinnum.
Kami Rita hefur nú farið upp á topp Mount Everest alls 26 sinnum. EPA/Narendra Shrestha

Sjerpinn Kami Rita bætti sitt eigið heimsmet í morgun þegar hann kleif Mount Everest í 26. skiptið. Rita er 52 ára gamall og fór fyrst upp á toppinn árið 1994.

Rita fór upp fjallið ásamt tíu öðrum fjallgöngumönnum og komst upp á toppinn í morgun.

Mount Everest er hæsta fjall heims og reyna um 800 göngumenn að klífa fjallið ár hvert. Best er að hafa með sér í göngunni heimamann sem þekkir fjallið, sjerpa, líkt og Rita er.

Fjallið hefur verið klifið yfir tíu þúsund sinnum síðan árið 1953 en 311 manns hafa látist við að reyna það.

Ellefu Íslendingar hafa komist á topp fjallsins. Leifur Örn Svavarsson er eini þeirra sem hefur farið oftar en einu sinni. Hann fór fyrst árið 2013 og svo aftur árið 2019 ásamt Bjarna Ármannssyni og Lýði Guðmundssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×