Íslenski boltinn

Sjáðu hvernig reiðir Víkingar kláruðu Keflvíkinga í fyrri hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Júlíus Magnússon skoraði glæsilegt mark fyrir Víking gegn Keflavík.
Júlíus Magnússon skoraði glæsilegt mark fyrir Víking gegn Keflavík. vísir/bára

Eftir tapið óvænta fyrir ÍA sýndu Íslands- og bikarmeistarar Víkings tennurnar gegn Keflavík í Bestu deild karla í gær.

Víkingar sýndu allar sínar bestu hliðar í fyrri hálfleiknum í gær og voru 4-0 yfir að honum loknum.

Kristall Máni Ingason kom Víkingi yfir á 11. mínútu og fjórtán mínútum síðar lagði hann upp mark fyrir Nikolaj Hansen, markakóng síðasta tímabils. Kristall var aftur á ferðinni á 39. mínútu þegar hann gaf boltann á Birni Snæ Ingason sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Víking.

Júlíus Magnússon skoraði svo fjórða mark Víkings með glæsilegu skoti á lofti í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Staðan því 4-0 í hálfleik.

Fátt markvert gerðist í seinni hálfleik fyrir utan að Adam Árni Róbertsson lagaði stöðuna fyrir Keflavík í uppbótartíma. Lokatölur 4-1, Víkingi í vil.

Klippa: Víkingur 4-1 Keflavík

Eftir leikinn talaði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, um að meistararnir hefðu verið svekktir eftir tapið fyrir ÍA og staðráðnir í að bæta upp fyrir það.

„Allt liðið bara svaraði þessu. Það voru allir „on“, maður fann það strax í upphitun að menn vildu svara fyrir mistökin uppi á Skaga og það var smá reiði í mönnum,“ sagði Arnar við Vísi í leikslok.

Víkingur hefur unnið tvo leiki og tapað einum á meðan Keflavík hefur tapað öllum þremur leikjum sínum með markatölunni 2-9.

Mörkin úr leiknum á Víkingsvelli í gær má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×