Innlent

For­seti Ís­lands með Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Njarðvík Haukar. Subwaydeild kvenna úrslit. Vetur 2021-2022. Körfubolti. Guðni Th. Jóhannesson forseti á leik Njarðvíkur og Hauka í úrslitaeinvígi Subway deildar kvenna í Reykjanesbæ í gærkvöldi.
Njarðvík Haukar. Subwaydeild kvenna úrslit. Vetur 2021-2022. Körfubolti. Guðni Th. Jóhannesson forseti á leik Njarðvíkur og Hauka í úrslitaeinvígi Subway deildar kvenna í Reykjanesbæ í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur greinst með Covid-19. 

Forsetinn greinir frá þessu í færslu á Facebook í dag. Forsetinn hefur í faraldrinum nokkrum sinnum verið skikkaður í sóttkví en þetta er í fyrsta sinn sem hann greinist með kórónuveiruna. 

„Þar kom að því. Ég er kominn með covid, vaknaði í morgun með einkenni flensu, fannst mér – þurran hósta, beinverki og almennt slen. Tók heimapróf til öryggis og línurnar tvær komu glöggt í ljós. Maður er ennþá frekar slappur og ráðleggingar um smitgát í fimm daga eftir greiningu ráða því að dagskrá mín á næstunni mun raskast nokkuð. 

Það er þó ekkert til að kvarta undan og ég vonast til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið um leið og tök eru á. Nú vona ég að enginn hafi smitast af mínum völdum á viðburðum undanfarinna daga. Farið vel með ykkur og góða helgi,“ segir forsetinn í færslunni.

Samkvæmt svörum frá skrifstofu forseta Íslands er Eliza Reid forsetafrú búin að taka Covid-próf í dag og fékk hún neikvæða niðurstöðu. Hún er auk þess ekki með nein einkenni Covid-19.

Embætti ríkislögreglustjóra tilkynnti í dag að ákveðið hafi verið að færa hættustig almannavarna vegna Covid-19 niður á óvissustig.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×