Sport

Ólympíumeistari tekur sér hlé frá keppni til að hlúa að andlegri heilsu sinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chloe Kim með gullmedalíuna sem hún fékk fyrir að vinna hálfpípu snjóbrettakeppninnar á Vetrarólympíuleikunum í Peking í febrúar.
Chloe Kim með gullmedalíuna sem hún fékk fyrir að vinna hálfpípu snjóbrettakeppninnar á Vetrarólympíuleikunum í Peking í febrúar. getty/Cameron Spencer

Bandaríska snjóbrettakonan Chloe Kim hefur ákveðið að taka sér hlé frá keppni á næsta tímabili til að hlúa að andlegri heilsu sinni.

Kim skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún varð Ólympíumeistari í hálfpípu á Vetrarólympíuleikunum í Peyongchang 2018. Hún var þá aðeins sautján ára og er enn yngsti sigurvegari í greininni í sögu Vetrarólympíuleikanna. Kim endurtók leikinn í Peking fyrr á þessu ári.

Kim fékk mikla athygli eftir að hún varð Ólympíumeistari fyrir fjórum árum, eitthvað sem fór ekkert sérstaklega vel í hana. Í viðtali við Time fyrr á þessu ári sagðist hún hafa glímt við þunglyndi eftir Vetrarólympíuleikana í Peyongchang 2018. Kim endaði á því að henda gullmedalíu sinni í ruslið.

Kim, sem varð 22 ára á laugardaginn, hefur nú ákveðið að taka sér hlé frá keppni. „Ég vil njóta augnabliksins og koma aftur þegar mér finnst ég vera tilbúin,“ sagði hún við BBC. „Ég vil endurstilla mig. Ég vil ekki fara strax aftur af stað eftir svona skemmtilegt en lýjandi ár.“

Kim stefnir á að vinna sitt þriðja Ólympíugull á Vetrarólympíuleikunum í Mílanó 2026. Auk þess að vinna tvenn gullverðlaun á Vetrarólympíuleikum hefur hún tvisvar sinnum orðið heimsmeistari auk þess að vinna sex gullverðlaun á X-leikunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×