Fótbolti

Stuðningsmenn Marseille settir í ferðabann fyrir toppslaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Marseille settu tilkomumikla sýningu á svið seinast þegar PSG mætti í heimsókn.
Stuðningsmenn Marseille settu tilkomumikla sýningu á svið seinast þegar PSG mætti í heimsókn. Lionel Hahn/Getty Images

Stuðningsmenn franska knattspyrnuliðsins Marseille fá ekki að ferðast til Parísar þar sem toppslagur frönsku deildarinnar fer fram í kvöld þegar PSG tekur á móti Marseille.

Innanríkisráðuneyti Frakklands hefur sett á sólarhrings ferðabann sem tók gildi á miðnætti. Ferðabannið var sett á til að tryggja að stuðningsmenn Marseille geti ekki ferðast á leik liðsins gegn toppliði Paris Saint-Germain í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Ástæða ferðabannsins er sú andúð sem ríkir á milli liðanna, en ekki hafa stuðningmenn beggja liða mátt mæta á leiki milli þeirra síðan liðin mættust í febrúar 2018. Á þeim leik slösuðust átta löggæslumeðlimir.

Frá og með miðnætti hefur því enginn sem skilgreinir sig sem stuðningsmann Marseille, eða nokkur sem hagar sér sem slíkur, mátt ferðast á milli Bouches-du-Rhone, svæðisins innan Frakklands sem inniheldur borgina Marseille, og Ile-de-France, svæðisins sem inniheldur París.

Franska úrvalsdeildin hefur sé sinn skerf af ofbeldi af höndum stuðningsmanna á tímabilinu, en þar á meðal hefur Dimitri Payet, leikmaður Marseille, fengið fljúgandi flösku í höfuðið úr stúkunni.

PSG trónir á toppi frönsku deildarinnar með 12 stiga forskot nú þegar sjö umferðir eru eftir. Marseille situr í öðru sæti og leikurinn í kvöld gæti verið þeirra seinasti séns til að gera alvöru atlögu að titlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×